Meðfylgjandi lög voru samþykkt þann 20.12. sl . Þau eru enn óbirt.
Um er að ræða verulega mikilvægar breytingar á reglum er varða undirbúning og framkvæmd skattlagningar, þ.e.a.s. upplýsingaskyldu banka og sérgerð skattframtöl.
Samkvæmt lögunum skulu bankar, sparisjóðir, önnur fjármálafyrirtæki og aðrir þeir aðilar sem taka við fjármunum til ávöxtunar, ótilkvaddir veita skattyfirvöldum ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður upplýsingar um greidda eða greiðslukræfa vexti á árinu , afdregna staðgreiðslu og innstæður eða inneignir á bankareikningum í árslok.
Einnig er sett sú regla að hafi framtalsskyldur maður ekki sinnt skyldu sinni til að telja fram sé skattstjóra heimilt að útbúa skattframtal á viðkomandi með fyrirliggjandi framtalsupplýsingum. Þannig gert skattframtal skal auðkennt sérstaklega og réttaráhrif þess eru þau sömu og áætlunar .
Ýmsar aðrar breytingar eru gerðar á lögunum og varða þær eftirtalið:
1. Að telja helming söluverðs sem söluhagnað
2. Endurhæfingarstyrki.
3. Hagnað af íbúðarsölu á Íslandi og fjárfesting í íbúð í EES landi.
4. Samsköttunarreglur félaga:
5. Búseturétt og vaxtabætur.
6. Tekjutengdar barnabætur sem miðast eingöngu við skattframtal.
7. Framlengingu á heimild til frestunar á skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum hjá rekstraraðilum.
Lögin öðlast gildi þegar við birtingu þeirra og koma til framkvæmda við álagningu 2009 á tekjur þessa árs.