Slit peningamarkaðssjóða. Skattaleg viðhorf. Staðgreiðsla. Ákvarðandi bréf RSK
Varðar: Slit peningamarkaðssjóða og afdrátt staðgreiðslu við útgreiðslur.
Í tölvupósti frá 21. október s.l. er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á meðferð útgreiðslna úr peningamarkaðssjóðum [ ] banka með hliðsjón af þeim tilmælum Fjármálaeftirlitsins til rekstrarfélaga verðbréfasjóða að gripið verði til aðgerða sem leiði til þess að þessum sjóðum verði slitið. Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins voru tilmælin þess efnis að ekki yrði opnað fyrir innlausnir í sjóðunum, heldur að sjóðsfélagar fengju greitt úr þeim, þ.e. allt laust fé hvers peningamarkaðssjóðs yrði greitt inn á innlánsreikninga sjóðsfélaga í hlutfalli við eign þeirra og jafnræði þeirra yrði haft að leiðarljósi. Í tilmælunum var einnig lagt til að greitt yrði mánaðarlega inn á innlánsreikninga sjóðsfélaga í samræmi við hlutfallslega eign þeirra eftir því sem aðrar eignir sjóðsins fengjust greiddar, uns engar eignir yrðu eftir í eignasafni sjóðanna.
Í fyrrgreindum tölvupósti kemur jafnframt fram að í sjóðunum séu undirliggjandi verðmæti m.a. skuldabréf banka sem miklar líkur séu á að sé tapað fé og af varúðarsjónarmiðum væri ekki vit í öðru en að færa varúðarafskrift vegna þessa. Gengi hlutdeildar sjóðsfélaga yrði því miðað við að verðmæti þessara skuldabréfa sé núll.
Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, teljast til tekna sem vextir, sbr. 1. mgr. lagagreinarinnar, af kröfum eða inneignum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, vextir sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir og greiddar verðbætur á afborganir og vexti. Til tekna í þessu sambandi telst enn fremur gengishækkun hlutdeildarskírteina, svo og hvers kyns gengishagnaður og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum öðrum kröfum og hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum. Í 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á um að vextir af reikningum í innlánsstofnunum skuli teljast til tekna þegar þeir eru færðir eiganda til eignar á reikningi. Þó skulu vextir af reikningum þar sem höfuðstóll og vextir eru bundnir til lengri tíma en 36 mánaða ekki teljast til tekna fyrr en þeir eru greiddir eða greiðslukræfir. Í 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 segir að vextir af kröfu skuli teljast til tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir. Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra, RSK 8.01 (framtalsleiðbeiningar einstaklinga 2008), segir varðandi innlend og erlend verðbréf og kröfur, þ.m.t. hlutdeildarskírteini, að færa skuli þær í skattframtal á nafnverði að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum í árslok, og að því er varðar hlutdeildarskírteini á gengi í árslok. Vexti af hlutdeildarskírteinum skuli færa til tekna þegar þeir séu lausir til ráðstöfunar.
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 30/2003 er hlutdeildarskírteini fjármálagerningur sem er staðfesting á tilkalli allra þeirra sem eiga hlutdeild í sjóði um sameiginlega fjárfestingu, eða einstakri deild hans, til verðbréfaeignar sjóðsins. Eigendur hlutdeildarskírteina eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins, eða viðkomandi deildar, í hlutfalli við hlutdeild sína.
Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996 skal við innlausn eða sölu gera skil á skatti af gengishækkun hlutdeildarskírteina. Ljóst má vera að samkvæmt tilmælum Fjármálaeftirlitsins á sér ekki stað eiginleg innlausn, sbr. ákvæði 27. gr. laga nr. 30/2003 og fer því ekki fram sá útreikningur innlausnarvirðis, sem mælt er fyrir um í 28. gr. síðast tilvitnaðra laga við þessar aðstæður.
Þrátt fyrir þá meginreglu að halda bæri eftir staðgreiðslu af vaxtatekjum sem falla kynnu til við útborgun, þ.e. skipti á hlutdeild í peningamarkaðssjóði yfir í innlánsreikning á því tímamarki þegar færslan fer fram, sbr. fyrrgreind ákvæði 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, þykir með vísan til þess sem fram kemur í tölvupósti og í fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins, og sérstakrar skírskotunar til þeirra aðstæðna sem uppi eru í þjóðfélaginu og öllum eru kunnar, mega fallast á að við útgreiðslur úr peningamarkaðssjóðum verði við þessar aðstæður miðað að fyrst sé greitt inn á höfuðstól, þ.e. kaupverð hlutdeildar hvers sjóðsfélaga fyrir sig. Að þessu gefnu yrði ekki reiknaður og afdreginn fjármagnstekjuskattur fyrr en útgreiðsla úr peningamarkaðssjóði fer umfram upphaflegt heildarkaupverð hvers sjóðsfélaga, enda yrði í heildina séð – fyrr ekki um neinn raunávinning í formi fjármagnstekna að ræða. Er í þessu sambandi sérstaklega litið til þess að veruleg óvissa er um hverjar endanlegar tekjur hugsanlega gætu orðið, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, og ekki síður þeirrar heimildar sem fyrir hendi er í 2. tölul. B-liðar 30. gr. laganna þess efnis að jafna megi saman fjármagnstekjum og töpuðum vöxtum verði greiðslufall á einstakri kröfu, sem staðgreiðsla hefur verið greidd af. Niðurstaða þessi byggir að sjálfsögðu á því að öllum upplýsingum og gögnum verði haldið til haga þannig að afdráttur staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts verði framkvæmdur, þegar og ef efni standa til eftir almennum reglum þar um.
Ríkisskattstjóri"