Kynning á umsóknarferli hjá Sameinuðu þjóðunum
Ríflega 150 manns tók þátt í þremur kynningarfundum um umsóknarferli fyrir stöður hjá alþjóðastarfsliði SÞ sem fram fóru dagana 16. og 17. apríl.
Tveir fundir fóru fram í utanríkisráðuneytinu og vegna mikillar aðsóknar var þriðja fundinum bætt á dagskrá og skráning á hann boðin öllum þeim sem ekki komust að á fyrri fundina tvo. Þriðji kynningarfundurinn fór fram í Ásbrú, fundarsal Bandalags Háskólamanna.
Hver fundur stóð í þrjár klukkustundir og fóru fulltrúar mannauðsskrifstofu SÞ í New York, Martha Helena Lopez og John Ericson, í gegnum gerð ferilskrár, útfyllingu umsóknareyðublaða og tilhögun atvinnuviðtala, auk þess sem þau sátu fyrir svörum í lok hvers fundar. Almenn skilyrði til umsókna hjá SÞ eru háskólamenntun, helst meistarapróf, og er krafist þess að umsækjendur tali ensku eða frönsku reiprennandi. Tungumálaþekking í öðrum tungumálum er kostur.
Sameinuðu þjóðirnar leita stöðugt að vel menntuðu og reynslumiklu fólki til starfa í alþjóðastarfsliðinu, m.a. til starfa sem sérfræðingar á skrifstofum stofnunarinnar og starfsstöðvum á vettvangi. Sótt er um störf hjá skrifstofu SÞ á heimasíðunni careers.un.org.
Glærusýning kynningarfundanna í þremur hlutum:
Almenn kynning
Hvernig á að sækja um
Tilhögun atvinnuviðtala