22. desember 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Persónuafsláttur og skattleysismörk hækka um 1,9%Samkvæmt gildandi lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal í upphafi árs hækka persónuafslátt hvers einstaklings í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði.Á grundvelli þess verður persónuafsláttur 646.739 kr. fyrir árið 2018, eða 53.895 á mánuði. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar um 11.859 kr. milli áranna 2017 og 2018, eða um 988 kr. á mánuði og nemur hækkunin 1,9%.
Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 151.978 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð, samanborið við 149.192 kr. á mánuði árið 2017. Hækkun skattleysismarka milli ára nemur 1,9%.
Þegar tekjur ná skattleysismörkum byrjar launþegi að greiða útsvar til sveitarfélags síns. Hann byrjar hins vegar ekki að greiða tekjuskatt til ríkisins fyrr en tekjur ná 249.514 kr. á mánuði árið 2018, samanborið við 244.940 kr. á mánuði árið 2017.
Tekjuskattur og útsvar í staðgreiðslu
Þrepamörk tekjuskatts uppreiknast samkvæmt lögum í upphafi ársins í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu á undangengnu tólf mánaða tímabili (nóv. til nóv.) Launavísitala nóvembermánaðar liggur nú fyrir og er hækkun hennar á tólf mánaða tímabili 7,1%. Þrepamörk tekjuskatts verða samkvæmt því við 10.724.553 kr. árstekjur (893.713 kr. á mánuði) fyrir árið 2018.
Tekjuskattsprósentur eru óbreyttar frá fyrra ári, 22,50% í neðra þrepi, og 31,8% í efra þrepi.
Útsvar til sveitarfélaga er líkt og tekjuskattur innheimt í staðgreiðslu og er það mishátt eftir sveitarfélögum. Þau geta samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,52%. Af 74 sveitarfélögum leggja 56 á hámarksútsvar. Þrjú sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar. Eitt sveitarfélag mun hækka útsvarsprósentuna. Þá mun eitt sveitarfélag lækka útsvar sitt fyrir tilstilli afnáms sérstaks álags. Þannig er ekkert sveitarfélag sem nýtir sér sérstakt álag árið 2018. Útsvarshlutfall einstakra sveitarfélaga kemur fram í fylgiskjali.
Meðalútsvar verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga óbreytt milli ára: 14,44%. Við staðgreiðslu ber launagreiðendum að miða við meðalútsvarshlutfallið.
Staðgreiðsluhlutfall ársins 2018 í heild, þ.e. samanlagt hlutfall tekjuskatts og meðalútsvars, verður því áfram 36,94% á tekjur í neðra þrepi og 46,24% á tekjur í efra þrepi.
Tryggingagjald
Tryggingagjald er óbreytt milli ára. Skipting þess er sem hér segir.
Almennt tryggingagjald 5,40%
Atvinnutryggingagjald 1,35%
Gjald í Ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota 0,05%
Markaðsgjald 0,05%
Samtals til staðgreiðslu 6,85%
Sérstök trygging (0,65%) bætist við vegna launa sjómanna á fiskiskipum. Tryggingagjaldi skal skila mánaðarlega til innheimtumanna ríkissjóðs.