Skráning raunverulegra eigenda hjá fyrirtækjaskrá
30.8.2019
Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra vill vekja athygli á því að frá og með 30. ágúst 2019 skulu allir lögaðilar sem stunda atvinnurekstur hér á landi afla upplýsinga um og skrá raunverulega eigendur sína og réttindi þeirra við stofnun í fyrirtækjaskrá.
Hinn 13. júní 2019 samþykkti Alþingi ný lög um skráningu raunverulegra eigenda nr. 82/2019 en raunverulegur eigandi telst í grunninn vera sá einstaklingur, einn eða fleiri, sem í raun á starfsemi eða stýrir lögaðila með beinum eða óbeinum hætti. Á grundvelli laganna þurfa allir lögaðilar sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá, þar með taldir útibú erlendra hlutafélaga og einkahlutafélaga, að afla upplýsinga um og skrá raunverulega eigendur sína og réttindi þeirra.
Frá og með 30. ágúst 2019 skulu því skráningarskyldir aðilar samkvæmt framangreindu veita fyrirtækjaskrá upplýsingar um raunverulega eigendur þeirra við stofnun. Veita skal upplýsingar um:
a. nafn,
b. lögheimili,
c. kennitölu eða fæðingardag ef kennitölu er ekki til að dreifa,
d. ríkisfang
e. eignarhlut, tegund eignarhalds og
f. gögn sem staðfesta veittar upplýsingar og sýna fram á að viðkomandi sé raunverulegur eigandi.
Upplýsingar um raunverulega eigendur skal tilkynna með eyðublaði RSK 17.27 og skal eyðublaðið fylgja stofngögnum félags til fyrirtækjaskrár.
Skráningarskyld félög eru sjálf ábyrg fyrir því að afla upplýsinga um raunverulega eigendur sína og getur fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra ekki veitt sérstakar ráðleggingar í þeim efnum. Leiki vafi á því hver telst raunverulegur eigandi skráningarskylds félags skal leita ráða hjá utanaðkomandi fagaðila, s.s. lögmanni, löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis.
Fyrirtækjaskrá beinir því jafnframt til félaga, sem þegar eru skráð í fyrirtækjaskrá og falla undir gildissvið laganna, að huga að því að safna saman upplýsingum um raunverulega eigendur sína. Upplýsingar um hvernig skuli staðið að tilkynningu um raunverulega eigendur þeirra félaga sem þegar eru skráð í fyrirtækjaskrá koma inn á næstu vikum en frestur til þess að veita upplýsingar er til 1. júní 2020.
Undanþegnir skráningu eru stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga sem og lögaðilar sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir.
Nánari upplýsingar um raunverulega eigendur:
http://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/raunverulegir-eigendur/