Search
Close this search box.

Skuldajöfnun Stoðir gegn ísl ríkinu

Fimmtudaginn 7. nóvember 2013.
Nr. 368/2013.
Stoðir hf.
(Arnar Þór Stefánsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Soffía Jónsdóttir hrl.)

Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni 
Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur 
Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2013. Hann krefst þess að 
viðurkennt verði að skattkrafa stefnda á hendur sér samkvæmt úrskurði 
ríkisskattstjóra 16. júní 2011, eins og honum var breytt með úrskurði 
yfirskattanefndar 11. desember 2012, að fjárhæð 444.260.798 krónur, vegna 
rekstraráranna 2006 og 2007, falli undir nauðasamning áfrýjanda sem 
staðfestur var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2009. Hann 
krefst þess jafnframt að viðurkennt verði að vextir af framangreindri 
kröfu fram til 6. apríl 2009 falli undir nauðasamninginn. Þá krefst hann 
þess að stefnda verði gert að greiða sér 455.010.924 krónur með 
dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og 
verðtryggingu aðallega frá 21. apríl 2010 en til vara frá 27. júní 2011 
til greiðsludags. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir 
Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir 
Hæstarétti.
I
Í mars og apríl 2008 komu fulltrúar skattstjórans í Reykjavík tvívegis á 
starfstöð áfrýjanda, sem þá bar nafnið FL Group hf., og óskuðu eftir 
upplýsingum og gögnum úr bókhaldi félagsins vegna rekstraráranna 2004, 
2005, 2006 og 2007. Skattstjórinn ritaði félaginu bréf 20. maí 2008 og 
óskaði frekari gagna og skýringa um nokkra nánar tilgreinda þætti í 
rekstri og bókhaldi þess, meðal annars varðandi kaup á 
virðisaukaskattskyldri þjónustu erlendis frá. Með bréfi 7. október 2008 
vísaði skattstjóri máli félagsins til skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem 
tilkynnti áfrýjanda 11. nóvember sama ár að rannsókn væri hafin á bókhaldi 
og skattskilum hans rekstrarárin 2005 til og með 2007.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2009 var áfrýjanda veitt 
heimild til að leita nauðasamnings. Með úrskurði 15. júní sama ár var 
nauðasamningur félagsins síðan staðfestur. Samkvæmt honum skyldu kröfur að 
lægri fjárhæð en 1.000.000 krónur greiðast að fullu með reiðufé. 
Samningskröfuhafar sem ættu hærri kröfur en það skyldu fá greidda sömu 
fjárhæð með reiðufé, en 5% af því sem þá stæði eftir af kröfum miðað við 
6. apríl 2009 skyldu þeir fá greidd með nýju hlutafé í áfrýjanda í 
almennum flokki gefnu út á genginu 1.
Áfrýjandi skilaði 12. október 2009 framtali vegna álagningar opinberra 
gjalda 2009 fyrir rekstrarárið 2008. Skilafrestur var þá liðinn og skyldi 
því litið á framtalið sem kæru til skattstjóra samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 
99. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Bar samkvæmt 3. málslið þeirrar 
málsgreinar að fella úrskurð á kærur innan tveggja mánaða frá lokum 
kærufrests, en í þessu tilviki stóð sá frestur til 20. apríl 2010 samkvæmt 
auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 1113/2009.
Skattrannsóknarstjóri tilkynnti áfrýjanda 6. desember 2010 að 
skattrannsókn vegna rekstraráranna 2006 og 2007 væri lokið og málið hefði 
verið sent ríkisskattstjóra sem tæki ákvörðun um hugsanlega 
endurálagningu. Þann 16. júní 2011 úrskurðaði ríkisskattstjóri á 
grundvelli rannsóknarinnar um breytingar á opinberum gjöldum og 
virðisaukaskatti áfrýjanda gjaldárin 2007 og 2008 vegna tekjuáranna 2006 
og 2007. Nam hækkun opinberra gjalda samkvæmt úrskurðinum samtals 
545.225.977 krónum og var virðisaukaskattur langstærsti hluti hennar. Á 
því tímabili sem um ræðir stundaði áfrýjandi ekki virðisaukaskattskylda 
starfsemi en hann var talinn hafa keypt þjónustu erlendis frá, einkum af 
dótturfélögum sínum, sem honum hafi borið að standa skil á 
virðisaukaskatti af. Á meðan skattrannsókn var enn ólokið hafði áfrýjandi 
skilað 18. október 2010 virðisaukaskattskýrslum vegna kaupa á þjónustu 
erlendis frá árin 2006 og 2007. Skattskyldur stofn sem þar var talinn fram 
var aðeins brot af því sem skattrannsóknarstjóri taldi að undan hefði 
verið dregið, en ríkisskattstjóri tók tillit til þessara skýrsluskila í 
úrskurði sínum.
Með bréfi 24. júní 2011 tilkynnti ríkisskattstjóri áfrýjanda að hann hefði 
úrskurðað um framangreint skattframtal áfrýjanda frá 12. október 2009, sem 
tekið hafi verið sem kæra. Voru þá liðnir rúmir 14 mánuðir frá því að 
frestur til að ljúka kærumeðferð rann út. Framtalið var lagt til 
grundvallar úrskurðinum. Samkvæmt honum skyldi endurgreiða staðgreiddan 
fjármagnstekjuskatt áfrýjanda samtals 447.591.256 krónur. Að auki 
breyttust tekjuskattur og tryggingagjald hans þannig að alls nam lækkun 
gjalda 456.010.924 krónum.
Þann 27. júní 2011 skuldajafnaði tollstjóri þeirri inneign áfrýjanda sem 
myndast hafði við framangreindan úrskurð ríkisskattstjóra á móti þeirri 
hækkun á opinberum gjöldum áfrýjanda, sem leiddi af úrskurði 
ríkisskattstjóra 16. sama mánaðar á grundvelli skattrannsóknarinnar. Með 
bréfi til tollstjóra 4. júlí 2011 andmælti áfrýjandi því að heimild væri 
til skuldajafnaðar og krafðist þess að inneign sín samkvæmt úrskurði 
ríkisskattstjóra 24. júní sama ár yrði greidd sér ásamt vöxtum. Taldi hann 
að krafa stefnda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 16. júní 2011 væri 
samningskrafa sem félli undir nauðasamning félagsins. Þessu erindi synjaði 
tollstjóri og urðu í framhaldi þess bréfaskipti milli hans og áfrýjanda, 
sem nánari grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Skaut áfrýjandi 
ákvörðun tollstjóra til fjármálaráðuneytisins, sem staðfesti afstöðu 
tollstjóra til endurgreiðslukröfunnar með úrskurði 18. janúar 2012. Þá 
krafðist áfrýjandi með bréfum sem bárust ríkisskattstjóra 14. september og 
19. október 2011 skýringa á því hversu langan tíma hefði tekið að úrskurða 
um skattframtal hans vegna rekstrarársins 2008. Því erindi svaraði 
ríkisskattstjóri 4. nóvember 2011.
Með kæru 27. júní 2011 skaut áfrýjandi úrskurði ríkisskattstjóra 16. sama 
mánaðar til yfirskattanefndar. Laut kæran eingöngu að 
virðisaukaskattsþætti úrskurðarins. Yfirskattanefnd kvað upp úrskurð í 
málinu 11. desember 2012 en áður hafði áfrýjandi höfðað mál þetta 21. júní 
sama ár. Samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar var virðisaukaskattur 
áfrýjanda vegna aðkeyptar þjónustu erlendis frá á árunum 2006 og 2007 
lækkaður nokkuð frá því sem ríkisskattstjóri hafði ákveðið og voru 
gjaldfærðar fjárhæðir virðisaukaskatts í framtölum 2007 og 2008 lækkaðar 
sem því svaraði. Því til samræmis breytti áfrýjandi upphaflegri kröfugerð 
sinni við aðalmeðferð málsins í héraði.
II
Áfrýjandi krefst í fyrsta lagi viðurkenningar á því að skattkrafa stefnda 
samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 16. júní 2011, eins og honum var breytt 
með úrskurði yfirskattanefndar 11. desember 2012, falli undir nauðasamning 
félagsins. Áfrýjanda var sem áður segir veitt heimild til að leita 
nauðasamnings með úrskurði 6. apríl 2009, en skattkröfur þessar varða 
rekstrarárin 2006 og 2007.
Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti 
o.fl. hefur nauðasamningur ekki áhrif á þær kröfur sem orðið hafa til 
eftir að úrskurður gekk um heimild skuldara til að leita hans. Áfrýjandi 
reisir þessa dómkröfu á þeirri málsástæðu að krafa stefnda samkvæmt 
úrskurði ríkisskattstjóra 16. júní 2011 hafi orðið til eða stofnast á 
rekstrarárunum 2006 og 2007, í síðasta lagi við lok hvors þeirra. Hún 
teljist því til samningskrafna og falli undir nauðasamninginn. Stefndi 
telur á hinn bóginn að þessi krafa hafi fyrst stofnast við úrskurð 
ríkisskattstjóra um endurákvörðunina 16. júní 2011. Í lögum nr. 21/1991 
eru engin ákvæði sem af verður dregin almenn ályktun um hvenær krafa telst 
hafa orðið til í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. og verður því um 
það efni að líta til reglna sem gilda um stofnun krafna á viðkomandi 
réttarsviði. Í þessu tilviki ræðst niðurstaðan af því hvenær skattkröfur 
teljast verða til eða stofnast.
Nokkurs misræmis hefur gætt í dómaframkvæmd um hvenær skattkrafa telst 
hafa stofnast í þessum skilningi. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 251/1990, 
sem birtur er í dómasafni 1993 bls. 85, var deilt um hvort krafa um 
launaskatt félli undir nauðasamning félags. Samkvæmt þágildandi 
lagaákvæðum um launaskatt skyldu gjaldendur reikna hann af launum 
ákveðinna tímabila rekstrarársins og standa tollstjóra skil á skýrslu 
ásamt greiðslu vegna viðkomandi tímabils. Félagið hafði hvorki staðið skil 
á launaskatti viðkomandi gjaldtímabila ársins 1985 né afhent 
launaskattskýrslur vegna þeirra. Álagning launaskatts vegna 
launaskattstímabila á árinu 1985 fór fram í júlí 1986. Tilraunir til 
nauðasamnings hófust samkvæmt þágildandi lögum 5. desember 1985. Þar sem 
tollstjóri hafði af framangreindum ástæðum ekki vitað á því tímamarki um 
skattskyldar launagreiðslur félagsins taldist launaskattskrafa á hendur 
félaginu ekki hafa þá verið orðin til og félli hún því ekki undir 
nauðasamning félagsins. Á sömu lund var niðurstaðan í dómi Hæstaréttar í 
máli nr. 174/1994, sem birtur er í dómasafni þess árs bls. 1300. Þar var 
talið að krafa um aðstöðugjald félags fyrir árið 1991, sem á var lagt í 
júlí 1992, hafi ekki verið orðin til á fyrri hluta ársins 1992, en þá var 
bú félagsins fyrst tekið til gjaldþrotaskipta og nauðasamningur síðar 
staðfestur. Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 467/1998, sem birtur er í 
dómasafni 1999 bls. 1455, og nr. 320/2000, sem birtur er í dómasafni 2001 
bls. 978, var niðurstaðan á annan veg, en báðir vörðuðu dómarnir sömu 
atvik. Fyrra málið var sakamál sem höfðað var á hendur framkvæmdastjóra 
einkahlutafélags fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa 
ekki staðið skil á virðisaukaskatti félagsins vegna greiðslutímabilsins 
september til október 1995. Einkahlutafélagið fékk heimild til að leita 
nauðasamnings 4. desember 1995, en virðisaukaskattskýrslu fyrir umrætt 
tímabil ásamt greiðslu skyldi skilað í síðasta lagi 5. sama mánaðar. Það 
gerði félagið ekki, en þeirri skýrslu mun hafa verið skilað án greiðslu 
19. ágúst 1996. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að krafan um 
virðisaukaskatt hafi verið fyrir tímabilið september og október 1995, en 
heimild til að leita nauðasamnings hafi ekki fengist fyrr en það var 
liðið. Krafan hafi samkvæmt því þegar verið fallin til 1. nóvember 1995, 
en gjaldanda verið óheimilt að greiða hana eftir að úrskurður hafi gengið 
um heimild til nauðasamningsumleitana. Hann var því ekki talinn hafa gerst 
brotlegur með því að láta hjá líða að inna skattinn af hendi 5. desember 
1995. Félagið greiddi síðan virðisaukaskatt vegna umrædds tímabils með 
fyrirvara og höfðaði mál til endurheimtu hans, en um þá kröfu var fjallað 
í síðari dóminum. Í honum var tekið fram að í fyrri dóminum hafi ekki 
verið talið að gjalddagi kröfunnar skæri úr um stofnun hennar, heldur hafi 
hún fallið til á uppgjörstímabilinu. Á grundvelli þess var krafan talin 
hafa verið til orðin við lok uppgjörstímabilsins og þar með áður en 
heimild var veitt til að leita nauðasamnings, en af þeim sökum félli 
krafan undir hann.
Samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar má engan skatt á leggja né breyta né 
af taka nema með lögum og samkvæmt 77. gr. hennar skal skattamálum skipað 
með lögum. Til samræmis við það eru í lögum ítarleg ákvæði um alla þætti 
skattamála. Þannig eru þar bæði skilgreindir skattstofnar og þau tímabil 
eða tímamörk er miða skal skattlagningu við. Í lögum eru einnig ákvæði um 
með hvaða hætti fjárhæð skatta skuli ákveðin og hvenær þeir skuli 
greiddir. Í sumum tilvikum þarf atbeina stjórnvalds til að ákveða fjárhæð 
skatta, en í þeim stofnast skattkrafa þegar stjórnvaldið hefur tekið 
nauðsynlega ákvörðun um greiðsluskyldu einstaks skattþegns og tilkynnt 
honum um ákvörðunina. Í öðrum tilvikum þarf ekki atbeina stjórnvalds til 
að ákveða fjárhæð skatta, heldur er gjaldanda ætlað að skila skýrslu sem 
byggja má skattfjárhæð á og standa síðan skil á greiðslu í samræmi við 
það. Þegar svo stendur á verður skattkrafa til þegar skattþegn skilar 
skýrslu með fullnægjandi upplýsingum, óháð því hvort greitt sé um leið, en 
jafna má slíkum skýrsluskilum til viðurkenningar gjaldanda á 
skattfjárhæðinni. Undir fyrrnefnda flokkinn fellur ákvörðun 
ríkisskattstjóra um hækkun skatta eftir álagningu þeirra samkvæmt 6. mgr. 
112. gr. laga nr. 90/2003, en það ákvæði á einnig við um virðisaukaskatt 
samkvæmt lokamálsgrein 49. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. 
Ákvörðun viðbótarskatta áfrýjanda með úrskurði ríkisskattsstjóra 16. júní 
2011, sem ágreiningur í málinu snýst um, fór fram á grundvelli þeirra 
lagagreina og falla þeir því samkvæmt framansögðu ekki undir nauðasamning 
áfrýjanda. Er þá einnig litið til þess að áfrýjandi skilaði ekki fyrir 6. 
apríl 2009 virðisaukaskattskýrslum sem byggja hefði mátt fjárhæð þessara 
skatta á. Samkvæmt þessu verður viðurkenningarkröfu áfrýjanda hafnað.
Í annan stað krefst áfrýjandi greiðslu á 455.010.924 krónum ásamt vöxtum, 
en sú fjárhæð nemur mismuni á staðgreiddum skatti af fjármagnstekjum hans 
á tekjuárinu 2008 og álagningu gjalda hans samkvæmt úrskurði 
ríkisskattstjóra 24. júní 2011, þó að frádregnum 1.000.000 krónum sem 
áfrýjandi telur stefnda eiga að fá greiddar eftir ákvæðum nauðasamnings 
hans. Reisir áfrýjandi þessa kröfu á því að skuldajöfnuður tollstjóra 27. 
júní 2011 fái ekki staðist og færir hann fyrir því tvær málsástæður. 
Annars vegar að gagnkrafa stefnda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 16. 
sama mánaðar falli undir nauðasamninginn en hins vegar að ríkisskattstjóri 
hafi dregið með ólögmætum hætti að leggja skattframtal áfrýjanda 2009 til 
grundvallar álagningu og með því meðal annars brotið gegn svonefndum 
skipulagslegum aðgreiningarreglum stjórnsýsluréttar sem leiði til 
ógildingar úrskurðar ríkisskattstjóra 24. júní 2011. Þegar tekin var 
afstaða til viðurkenningarkröfu áfrýjanda hér að framan var hafnað fyrri 
málsástæðu hans fyrir greiðslukröfunni. Skattkrafa stefnda vegna áranna 
2006 og 2007 fellur samkvæmt því ekki undir nauðasamning áfrýjanda og 
stendur óhögguð. Stefndi á því gagnkröfu á móti greiðslukröfu áfrýjanda og 
verður ekki séð að þeirri niðurstöðu fenginni hvaða hagsmuni hann geti 
haft af því að dómur gangi um þennan síðari þátt dómkrafna hans. Þá er og 
til þess að líta varðandi síðari málsástæðu áfrýjanda að yrði fallist á að 
úrskurður ríkisskattstjóra 24. júní 2011 um framtal hans 2009 væri ógildur 
myndi það fráleitt leiða til þess að tekin yrði til greina greiðslukrafa 
hans, sem er höfð uppi á grundvelli þess sama úrskurðar. Samkvæmt öllu 
framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2013.
Mál þetta sem dómtekið var 11. apríl 2013 var höfðað fyrir Héraðsdómi 
Reykjavíkur 21. júní 2012 af Stoðum hf., Hátúni 2B, Reykjavík, á hendur 
íslenska ríkinu, Arnarhváli, Reykjavík.
Kröfur aðila
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:
1.      Að viðurkennt verði með dómi að skattkröfur stefnda á hendur 
stefnanda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, dagsettum 16. júní 2011, 
eins og þeim úrskurði var breytt með úrskurði yfirskattanefndar nr. 
391/2012, dagsettum 11. desember 2012, samtals að fjárhæð 444.260.798 
krónur, vegna rekstraráranna 2006 og 2007, falli undir nauðasamning 
stefnanda sem samþykktur var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. 
júní 2009. Jafnframt að viðurkennt verði með dómi að vextir af 
skattkröfunum fram til 6. apríl 2009 falli undir nauðasamninginn. 
2.      Að stefndi endurgreiði stefnanda 455.010.924 krónur. Þá er þess 
aðallega krafist að endurgreiðslukrafan beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 
6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 21. apríl 2010 til 
greiðsludags, en til vara að endurgreiðslukrafan beri dráttarvexti 
samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 
27. júní 2011, til greiðsludags.
3.      Að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að 
skaðlausu.
Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum 
stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati 
dómsins.
Atvik máls
Hinn 12. mars 2008 hóf Skattstjórinn í Reykjavík skoðun á bókhaldi og 
skattskilum stefnanda, sem þá bar heitið FL Group hf. Sú skoðun leiddi til 
þess að skattskilum stefnanda vegna rekstraráranna 2005, 2006 og 2007 var, 
7. október 2008, vísað til skattrannsóknarstjóra ríkisins til rannsóknar. 
Með bréfi 11. nóvember 2008 tilkynnti skattrannsóknarstjóri ríkisins 
stefnanda að hafin hefði verið á vegum embættisins rannsókn á bókhaldi og 
skattskilum stefnanda rekstrarárin 2005 til og með 2007. 
Hinn 29. september 2008 fór stjórn stefnanda þess á leit við Héraðsdóm 
Reykjavíkur að honum yrði veitt heimild til greiðslustöðvunar. Samþykkti 
héraðsdómur beiðnina og veitti stefnanda heimild til greiðslustöðvunar til 
20. október 2008. Greiðslustöðvun stefnanda var framlengd tvívegis, í 
fyrra skiptið til 20. janúar 2009 en í síðara skiptið til 6. apríl 2009. 
Hinn 22. janúar 2009 óskaði stefnandi eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur 
til að leita nauðasamninga. Féllst héraðsdómur á beiðnina með úrskurði 
uppkveðnum 6. apríl 2009. Á fundi með atkvæðismönnum 26. maí 2009 var 
frumvarp stefnanda að nauðasamningi lagt fram og samþykkt með tilskyldum 
meirihluta atkvæða miðað við fjárhæð og fjölda krafna. Frumvarpið var 
svohljóðandi:
1. Kröfur að lægri fjárhæð en kr. ein milljón greiðast að fullu með 
reiðufé. Samningskröfuhafar sem eiga kröfu að fjárhæð umfram kr. ein 
milljón fá greidda eina milljón króna með reiðufé. Greiðslan verður innt 
af hendi að liðnum einum degi frá því að nauðasamningur félagsins hefur 
verið endanlega staðfestur, eftir atvikum þegar kærufrestur úrskurðar 
héraðsdóms um staðfestingu nauðasamnings rennur úr eða Hæstiréttur Íslands 
hefur staðfest nauðasamning félagsins. 2. Þeim samningskröfuhöfum sem ekki 
fá fullnustu krafna sinna með framangreindri greiðslu fá greiddar 5% af 
kröfufjárhæðinni, eins og hún stóð þann 6. apríl 2009, að frádreginni 
greiðslu skv. lið 1, með nýju hlutafé í almennum flokki í Stoðum, gefnu út 
á genginu 1, þ.e. fyrir hverja krónu kröfu viðkomandi kröfuhafa greiðist 
ein nafnverðskróna í hlutafé í Stoðum. 3. Ekki verða settar tryggingar 
fyrir greiðslum skv. framangreindu.
Við fyrirtöku nauðasamningsins fyrir héraðsdómi komu engin andmæli gegn 
samningnum fram og var hann staðfestur með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 
15. júní 2009.
Stefnandi skilaði skattframtali 2009 vegna rekstrarársins 2008 hinn 12. 
október 2009 og var það eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu var 
lokið. Var framtalið því tekið sem kæra til ríkisskattstjóra skv. 2. ml. 
1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.
Hinn 28. júní 2010 mun skattrannsóknarstjóri ríkisins hafa sent stefnanda 
skýrslu, dagsetta 25. júní, um skattrannsóknina á hendur honum, sem eins 
og áður er rakið hófst í framhaldi af bréfi Skattstjórans í Reykjavík til 
skattrannsóknarstjóra ríkisins, 7. október 2008. Mun stefnandi hafa gert 
fjölmargar athugasemdir við skýrsluna í samtals átta bréfum. 
Skattrannsóknarstjóri ríkisins tók saman lokaskýrslu um rannsóknina 3. 
desember 2010 og mun hún að mestu hafa verið efnislega samhljóða fyrri 
skýrslu embættisins frá 25. júní. Með bréfi 6. desember 2010, sendi 
skattrannsóknarstjóri ríkisins niðurstöður rannsóknarinnar á hendur 
stefnanda til ríkisskattstjóra til endurákvörðunar opinberra gjalda. Þá 
tilkynnti skattrannsóknarstjóri ríkisins stjórn stefnanda, 28. janúar 
2011, að hann hefði vísað máli félagsins til opinberrar rannsóknar hjá 
efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Í bréfi stefnanda til 
ríkisskattstjóra, 2. mars 2011, vísaði hann til þess að þrír mánuðir væru 
liðnir frá því að félaginu hefði verið tilkynnt um lok rannsóknar hjá 
embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins og að málið hefði verið sent 
ríkisskattstjóra til meðferðar. Það væri stefnanda mikið hagsmunamál að 
niðurstaða fengist í málið eins fljótt og unnt væri. Í umræddu bréfi 
stefnanda kom m.a. fram að eftir að frumskýrsla skattrannsóknarstjóra 
ríkisins í máli stefnanda hefði legið fyrir hefði stefnandi hlutast til um 
leiðréttingar á því sem augljóslega hefði að hans mati farið aflaga við 
framtalsskil félagsins. Hefði skýrslum verið skilað til skattyfirvalda 
vegna þessa og skattur greiddur að fullu í september 2010. Hins vegar 
hefði stefnandi mótmælt málsmeðferðinni og tilteknum ályktunum og 
niðurstöðum í frumskýrslunni með bréfi til skattrannsóknarstjóra ríkisins. 
Áréttaði stefnandi þessi mótmæli. Með bréfi, 4. mars 2011, tilkynnti 
ríkisskattstjóri stefnanda að álagningu opinberra gjalda vegna gjaldársins 
2009 væri enn ólokið, vegna mikilla anna hjá embætti ríkisskattstjóra, en 
áformað væri að ljúka úrskurði á kærunni innan 2-3 vikna. Með bréfi, 16. 
maí 2011, boðaði ríkisskattstjóri stefnanda endurákvörðun opinberra gjalda 
félagsins gjaldárin 2007 og 2008 og virðisaukaskatts árin 2006 og 2007 
vegna breytinga sem ríkisskattstjóri hygðist gera á skattskilum stefnanda 
vegna rekstraráranna 2006 og 2007. Voru boðaðar breytingar í meginatriðum 
þríþættar. Í fyrsta lagi boðaði ríkisskattstjóri lækkun á gjaldfærðum 
rekstrarkostnaði stefnanda umrædd rekstrarár. Í öðru lagi boðaði 
ríkisskattstjóri breytingar á gjaldstofni tryggingagjalda og á 
staðgreiðslu opinberra gjalda stefnanda. Í þriðja lagi kvaðst 
ríkisskattstjóri hafa í hyggju að áætla stefnanda virðisaukaskatt til 
greiðslu árin 2006 og 2007 vegna kaupa félagsins á tilgreindri þjónustu 
frá útlöndum. Með bréfi, 6. júní 2011, mótmælti stefnandi hluta boðaðra 
breytinga ríkisskattstjóra m.a. fyrirhugaðri ákvörðun virðisaukaskatts af 
aðkeyptri þjónustu frá útlöndum. Hinn 16. júní 2011 kvað ríkisskattstjóri 
upp úrskurð um breytingar á opinberum gjöldum og virðisaukaskatti 
stefnanda gjaldárin 2007 og 2008 vegna tekjuáranna 2006 og 2007, á 
grundvelli framangreindrar rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem 
lokið hafði með skýrslu hans 3. desember 2010. Hinn 24. júní 2011 
úrskurðaði ríkisskattstjóri að leggja mætti innsent skattframtal stefnanda 
vegna gjaldársins 2009, sem móttekið hafði verið, eins og áður er rakið, 
12. október 2009, til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 2009. 
Samkvæmt úrskurðinum átti stefnandi rétt á endurgreiðslu 
fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjum og arðstekjum samtals að fjárhæð 
447.591.256 krónur. Hinn 27. júní 2011 var umræddri endurgreiðslu 
skuldajafnað á móti skattskuld stefnanda skv. framangreindum úrskurði 
ríkisskattstjóra frá 16. júní 2011 þ.e. á móti endurákvörðuðum 
virðisaukaskatti árin 2006 og 2007 og opinberum gjöldum félagsins 
gjaldárin 2007 og 2008. Sama dag kærði stefnandi úrskurð ríkisskattstjóra 
frá 16. júní til yfirskattanefndar. Yfirskattanefnd kvað upp úrskurð í 
málinu 11. desember 2012. Fól niðurstaða nefndarinnar í sér lækkun 
skattkröfu á hendur stefnanda, miðað við úrskurð ríkisskattstjóra frá 16. 
júní 2011, úr 545.225.977 krónum í 444.260.798 krónur. Stefnandi mótmælti 
framangreindum skuldajöfnuði tollstjóra, 4. júlí 20115, og krafðist þess 
að honum yrði endurgreidd inneign skv. tilkynningu ríkisskattstjóra frá 
24. júní 2011, ásamt vöxtum. Vísaði stefnandi til áðurgreinds úrskurðar 
Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. júní 2009, þar sem nauðasamningur félagsins 
hefði verið staðfestur. Lýsti stefnandi þeirri skoðun sinni að skattkrafa 
ríkissjóðs, samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra frá 16. júní 2011, væri 
skilyrt krafa í skilningi 31. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti 
o.fl., og að skattyfirvöld, þ.m.t. innheimtumaður ríkissjóðs, væru bundin 
af nauðasamningnum. Bæri stefnanda því í samræmi við nauðasamninginn 
eingöngu að greiða ríkinu eina milljón króna í reiðufé og 5% eftirstöðva 
með hlutafé í stefnanda. Í svari tollstjóra til stefnanda, 23. ágúst 2011, 
kemur fram að tollstjóri telji að hvorki lagaheimildir né dómafordæmi 
standi til þess að verða við kröfu stefnanda um endurgreiðslu umræddrar 
inneignar. Var endurgreiðslukröfu stefnanda hafnað. Með bréfi til 
tollstjóra, 26. september 2011, ítrekaði stefnandi þann skilning sinn að 
skattkrafan, sem tollstjóri hefði til innheimtu samkvæmt úrskurði 
ríkisskattstjóra frá 15. júní 2011, væri skilyrt krafa í skilningi 31. gr. 
laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að innheimtumaður ríkissjóðs 
væri af þeim sökum, hvað innheimtu skattkröfunnar varðaði, bundinn af 
nauðasamningi félagsins. Þá tók stefnandi fram að með bréfi til 
ríkisskattstjóra, 14. september 2011, hefðu verið gerðar alvarlegar 
athugasemdir við málsmeðferð ríkisskattstjóra, vegna álagningar á 
skattframtal stefnanda árið 2009. Teldi stefnandi að ríkisskattstjóri 
hefði tekið meðvitaða ákvörðun um að draga álagningu á skattframtal 
félagsins árið 2009 langt fram yfir lögmælta fresti til þess að 
ríkissjóður næði fram skuldajöfnuði þeim er fram hefði farið 27. júní 
2011. Væri það skoðun stefnanda að málsmeðferð ríkisskattstjóra hefði í 
för með sér ógildingu á þeirri ákvörðun tollstjóra að skuldajafna inneign 
félagsins á móti meintum vangoldnum virðisaukaskatti og opinberum gjöldum 
félagins. Ítrekaði stefnandi þá afstöðu sína að ríkissjóður væri bundinn 
af nauðasamningi stefnanda frá 15. júní 2009. Hefði stefnandi í ljósi þess 
ákveðið að efna nauðasamninginn af sinni hálfu gagnvart ríkissjóði með 
útgáfu 37.043.008 hluta í A-flokki til handa ríkissjóði og væri það 
fullnaðargreiðsla á meintri skattkröfu ríkissjóðs með álagi og 
dráttarvöxtum til frestdags, 6. apríl 2009, samtals að fjárhæð 741.860.157 
krónur. Þá tók stefnandi fram í sama bréfi að tollstjóra væri heimilt í 
samræmi við nauðasamninginn að skuldajafna 1.000.000 króna af fyrrgreindri 
inneign félagsins vegna fjármagnstekjuskatts. Þá ítrekaði stefnandi kröfu 
sína um endurgreiðslu þeirra fjármuna sem skuldajafnað hefði verið 27. 
júní 2011, upp í meinta skattkröfu ríkissjóðs, að frádreginni 1.000.000 
króna, sem greiða bæri samkvæmt nauðasamningnum í reiðufé, sbr. 1. tl. 
nauðasamningsins. Tollstjóri svaraði framangreindu bréfi stefnanda frá 26. 
september 2011, með bréfi, 18. október 2011. Í svarinu kom fram að 
athugasemdir stefnanda við málsmeðferð skattyfirvalda breyttu engu um þá 
skoðun tollstjóra að umræddur skuldajöfnuður hefði verið lögmætur. Var 
erindi stefnanda hafnað. Með bréfi stefnanda til ríkisskattstjóra, 19. 
október 2011, var þess krafist að ríkisskattstjóri upplýsti hvaða ástæður 
hefðu legið því að baki að ekki hefði verið lagt á skattframtal stefnanda 
fyrir árið 2009 fyrr en tæpum tveimur árum eftir að skattframtali 
stefnanda árið 2009 hefði verið skilað. Þá var jafnframt tekið fram að 
kæmu ekki fram eðlilegar skýringar á málsmeðferðinni, innan 10 daga frá 
dagsetningu bréfsins og að því gefnu að tollstjóri hefði þá ekki 
endurgreitt stefnanda inneign að fjárhæð 492.480.310 krónur ásamt vöxtum, 
yrði ekki hjá því komist að höfða mál á hendur ríkissjóði. Með bréfi 
stefnanda til tollstjóra, 19. október 2011, voru fyrri kröfur á hendur 
embættinu ítrekaðar og tekið fram að stefnandi hefði efnt nauðasamninginn 
af sinni hálfu. Ríkissjóður hefði móttekið hlutabréf í stefnanda á 
vörslureikning ríkissjóðs og væri nú skráður hluthafi í stefnanda samkvæmt 
rafrænni hlutaskrá félagsins. Fullnaðargreiðsla á skattkröfu ríkissjóðs 
hefði því farið fram. Þá ítrekaði stefnandi kröfu sína um endurgreiðslu á 
inneign félagsins vegna endurgreidds fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjum 
og arðgreiðslum ásamt vöxtum, sem stofnast hefði í kjölfar álagningar 
ríkisskattstjóra, 24. júní 2011, á skattframtal félagsins árið 2009. 
Tollstjóri hafnaði kröfum stefnanda, 31. október 2011, með þeim rökum að 
skuldajafnaðarákvæði skattalaga væru skýr, hvað varðaði skyldu ríkissjóðs 
til að skuldajafna inneignum á móti gjaldföllnum sköttum og gjöldum. 
Stefnandi kærði framangreinda synjun tollstjóra til fjármálaráðuneytisins 
með kæru, 4. nóvember 2011. Krafðist stefnandi þess m.a. að honum yrði 
endurgreidd inneign vegna endurgreidds fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjum 
og arðgreiðslum ásamt vöxtum, sem stofnast hefði í kjölfar álagningar 
ríkisskattstjóra á skattframtal félagsins árið 2009. Um málsástæður vísaði 
stefnandi til þess sem áður hefði komið fram þess efnis að krafa 
ríkissjóðs samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, 16. júní 2011, væri skilyrt 
krafa í skilningi 28. gr. laga nr. 21/1991 og að innheimtumaður ríkissjóðs 
væri bundinn af nauðasamningi stefnanda frá 15. júní 2009. Af samningnum 
leiddi að stefnanda bæri eingöngu að greiða upp í skattkröfu ríkissjóðs 
eina milljón króna í reiðufé og 5% eftirstöðva með hlutafé í félaginu. Auk 
þess byggði stefnandi á að skuldajöfnuður tollstjóra hefði verið ólögmætur 
vegna aðgerða ríkisskattstjóra við álagningu á skattframtal félagsins árið 
2009, sem leitt hefði til þess að öll skattkrafa ríkissjóðs félli undir 
nauðasamning stefnanda frá 15. júní 2009. Í niðurlagi bréfsins tók 
stefnandi fram að afstaða tollstjóra til nauðasamnings stefnanda lægi ekki 
enn fyrir. Tollstjóri hefði ekki staðfest uppgjör stefnanda á grundvelli 
nauðasamningsins, þótt ekki væri nema gagnvart þeim eftirstöðvum af kröfu 
tollstjóra, sem ekki hefðu fengist greiddar með hinum ólögmæta 
skuldajöfnuði. Fram kæmi á viðskiptayfirliti tollstjóra frá 2. nóvember 
2011, að ekki hefði verið tekið tillit til greiðslu í formi hlutabréfa, 
þrátt fyrir að ríkissjóður hefði tekið við hlutabréfum í stefnanda að 
nafnvirði 37.043.008 krónur. Var þess krafist að í úrskurði 
fjármálaráðuneytisins yrði tekin skýr afstaða til þessarar málsástæðu 
stefnanda ásamt öðrum álitaefnum. Fjármálaráðuneytið kvað upp úrskurð í 
málinu 18. janúar 2012. Af hálfu ráðuneytisins var komist að þeirri 
niðurstöðu að ekki væri unnt að taka afstöðu til innheimtuþáttar málsins, 
þar sem úrskurður ríkisskattstjóra hefði verið kærður til 
yfirskattanefndar. Engin niðurstaða lægi því fyrir um að ríkisskattstjóri 
hefði ekki farið að lögum við meðferð málsins. Um heimildir til 
skuldajafnaðar og áhrif nauðasamnings í því sambandi komst ráðuneytið að 
þeirri niðurstöðu að nauðasamningur stefnanda hefði ekki áhrif á heimildir 
til skuldajafnaðar vegna inneignar kæranda á grundvelli úrskurðar 
ríkisskattstjóra frá 24. júní 2011. Að því er nauðasamning stefnanda 
varðaði tók ráðuneytið undir með tollstjóra að afstaða embættisins lægi 
enn ekki fyrir og beindi því til stefnanda að óska eftir afstöðu 
tollstjóra til þess hvort nauðasamningurinn tæki til eftirstöðva krafna 
sem tilkomnar væru vegna úrskurðar ríkisskattstjóra frá 16. júní 2011. Í 
kjölfar úrskurðar fjármálaráðuneytis sendi stefnandi tollstjóra bréf, 26. 
janúar 2012, og krafðist þess að tollstjóri tæki afstöðu til nauðasamings 
stefnanda og að meintar gjaldfallnar skuldir stefnanda við tollstjóra yrðu 
felldar úr bókum embættisins. Í svari tollstjóra, 12. mars 2012, kemur 
fram sú skoðun embættisins að álitaefnið lúti að því hvort skattkrafa sú 
sem ríkisskattstjóri hafi lagt á stefnanda, 16. júní 2011, hafi verið 
orðin til í skilningi 28. og 31. gr. laga nr. 21/1991, þegar úrskurður 
hafi gengið um heimild félagsins til að leita nauðasamninga, 6. apríl 
2009. Telji tollstjóri að þeir dómar sem stefnandi hafi vísað til í 
málatilbúnaði sínum hafi ekki fordæmisgildi við úrlausn málsins, þar sem 
málsatvik væru með gerólíkum hætti. Í tilviki stefnanda hafi engum 
skýrslum verið skilað vegna umrædds skatts og engar greiðslur farið fram 
sem bent hafi til þess að félaginu bæri að standa skil á virðisaukaskatti 
vegna kaupa á þjónustu erlendis frá. Skattyfirvöld hafi þ.a.l. ekki getað 
lagt umræddan skatt á, á grundvelli 25. og 26. gr. laga nr. 50/1988 um 
virðisaukaskatt. Þá hafi ekkert legið fyrir um skattskyldu stefnanda, 
þegar hann hafi fengið heimild til að leita nauðasamnings og að tollstjóri 
hafi aðeins lýst kröfu í nauðasamninginn vegna bifreiðagjalds, sem hafi 
verið eina skuld félagsins við tollstjóra á þeim tíma. Engri annarri kröfu 
hafi verið mögulegt að koma að við nauðasamninginn. Krafa um 
virðisaukaskatt vegna kaupa á þjónustu erlendis frá hafi því ekki verið 
til staðar, þegar félagið hafi fengið heimild til að leita nauðasamninga, 
6. apríl 2009. Það sé óumdeilt að ríkisskattstjóra hafi ekki verið kunnugt 
um virðisaukaskattsskylda starfsemi félagsins þau ár sem um hafi verið að 
ræða og hafi fyrst orðið það ljóst eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra 
hafi hafist í nóvember 2008. Hafi ríkisskattstjóri í framhaldinu neytt 
heimildar skv. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 og endurákvarðað 
virðisaukaskatt á félagið með úrskurði 16. júní 2011. Samkvæmt 6. mgr. 
112. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, hafi 
virðisaukaskatturinn fallið í gjalddaga 10 dögum eftir að stefnanda hafi 
verið tilkynnt um álagninguna og því væri ljóst að krafan hefði fyrst 
orðið til með úrskurði ríkisskattstjóra sem kveðinn hafi verið upp 16. 
júní 2011. Sé það samandregin niðurstaða tollstjóra að lok 
uppgjörstímabila geti ekki komið til álita sem stofndagur kröfu heldur sá 
dagur sem skattyfirvöld hafi fyrst getað lagt skattinn á samkvæmt 
fyrirmælum 25. og 26. gr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, þ.e. 16. 
júní 2011. Með vísan til framangreindra sjónarmiða væri því hafnað að 
eftirstöðvar skattskuldar stefnanda gætu fallið undir nauðasamning 
stefnanda. Eins og áður er rakið kvað yfirskattanefnd upp úrskurð 11. 
desember 2012 vegna kæru stefnanda á úrskurði ríkisskattstjóra frá 16. 
júní 2011 um endurákvörðun opinbera gjalda stefnanda gjaldárin 2007 og 
2008 og virðisaukaskatts árin 2006 og 2007. Kæran laut að breytingum á 
virðisaukaskatti stefnanda rekstrarárin 2006 og 2007. Var niðurstaða 
nefndarinnar sú að virðisaukaskattur stefnanda vegna aðkeyptrar þjónustu 
erlendis frá var lækkaður um 39.931.670 krónur árið 2006 og um 53.389.130 
krónur árið 2007 frá ákvörðun ríkisskattstjóra. Gjaldfærðar fjárhæðir 
virðisaukaskatts í skattframtölum kæranda árin 2007 og 2008 voru lækkaðar 
samsvarandi.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvenær skattkrafa stefnda á hendur 
stefnanda vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar 
fyrir gjaldárin 2007 og 2008 hafi stofnast og hvort krafan hafi verið 
samningskrafa í merkingu 1. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991 um 
gjaldþrotaskipti o.fl. og fallið undir nauðasamning stefnanda sem 
staðfestur var af Héraðsdómi Reykjavíkur 15. júní 2009. Þá greinir aðila á 
um hvort tollstjóra hafi verið heimilt að skuldajafna innstæðu stefnanda á 
móti framangreindri skattkröfu hinn 27. júní 2011.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína á eftirfarandi málsástæðum og 
lagarökum. Stefnandi telji að krafa ríkissjóðs, sem tollstjóri hafi fengið 
til innheimtu í framhaldi af úrskurði ríkisskattstjóra, 16. júní 2011, og 
verið hafi vegna gjaldáranna 2007 og 2008, samtals að fjárhæð 545.225.977 
krónur en nú að gengnum úrskurði yfirskattanefndar, 11. desember 2011, 
444.260.798 krónur, auk vaxta, hafi verið skilyrt krafa í skilningi 31. 
gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að skattyfirvöld, þ.m.t. 
innheimtumaður ríkissjóðs hafi verið og séu af þeim sökum bundin af 
nauðasamningi stefnda. Af því leiði að við allar greiðslur stefnanda upp í 
meintar skattkröfur beri að taka mið af nauðasamningnum, sem þýði að upp í 
fyrrgreinda skattkröfu ríkissjóðs að fjárhæð 444.260.798 krónur, að 
viðbættum vöxtum til 6. apríl 2009, beri stefnanda einungis að greiða eina 
milljón króna í reiðufé og 5% eftirstöðva með hlutafé í stefnanda. Þá 
fjárhæð hafi ríkissjóður fengið greidda úr hendi stefnanda með 
skuldajöfnun ríkissjóðs og hlutabréfum stefnanda, með fyrirvara um 
endanlegar lyktir málsins fyrir yfirskattanefnd. Stefnandi byggi á því að 
í 28. gr. laga nr. 21/1991, séu með skýrum hætti tilteknar ákveðnar 
tegundir krafna sem nauðasamningur taki ekki til. Þær kröfur á hendur 
skuldara, sem ekki séu undanþegnar áhrifum nauðasamnings og falli ekki 
niður vegna hans samkvæmt ákvæðinu, teljist til samningskrafna og falli 
því undir nauðasamninginn, sbr. 29. gr. sömu laga. Við skoðun nefndra 
ákvæða komi í ljós að kröfur vegna skatta eða opinberra gjalda falli ekki 
undir ákvæði 28. gr. laganna, heldur 29. gr. sömu laga. Teljast þær því 
til samningskrafna samkvæmt 29. gr., enda hafi þær átt tilvist við 
uppkvaðningu úrskurðar um heimild til nauðasamningsumleitanna. Í þessu 
sambandi beri jafnframt að hafa í huga að einu gildi hvort um kröfu hafi 
verið vitað eða hún háð ókomnu skilyrði við gerð nauðasamningsins. Þar ber 
að líta til ákvæðis 31. gr. laga nr. 21/1991 sem sé svohljóðandi: 
Kröfur teljast til samningskrafna án tillits til þess hvort vitað sé um 
þær eða þær séu háðar ókomnu skilyrði við gerð nauðasamnings.
Ágreiningur um réttmæti kröfu breytir því ekki að hún verði talin 
samningskrafa eins og endanlega verður úr henni leyst. 
Af ákvæði 31. gr. laga nr. 21/1991 leiði að nauðasamningur taki til kröfu 
án tillits til þess hvort hún hafi verið þekkt við gerð nauðasamnings eða 
henni hafi verið lýst við samningsumleitanir og einnig án tillits til þess 
hvort krafan hafi verið skilyrt eða umdeild. Sé krafa skilyrt eða umdeild 
verði samningurinn bindandi um kröfuna að fullnægðu skilyrði fyrir henni 
eða leystum ágreiningi um hana, ef krafan sé þá að einhverju leyti fyrir 
hendi. Samkvæmt þessu sé ljóst að umdeildar og skilyrtar kröfur falli 
undir hugtakið samningskröfur. Ekkert ákvæði gjaldþrotaskiptalaga eða laga 
um tekjuskatt eða önnur lög um álagningu skatta hafi að geyma sérreglur 
varðandi skattkröfur, sem hér komi til álita. Afleiðingin sé sú að þær 
skattkröfur sem hér um ræði falli undir hin almennu ákvæði laganna um 
samningskröfur án þess að sérreglna gæti. Álitaefnið sé því hvenær krafa 
stefnda á hendur stefnanda vegna gjaldáranna 2007 og 2008 hafi orðið til. 
Stefnandi byggi á því að skattkröfur teljist fallnar til við lok þess 
uppgjörstímabil, sem þær varði, hvort heldur það sé í lok uppgjörstímabils 
í tilviki virðisaukaskatts eða rekstrarárs í tilviki opinberra gjalda. Hin 
upphaflega skattkrafa í máli þessu hafi verið fastákveðin við reglulega 
álagningu þ.e. 31. október árin 2007 og 2008, sbr. auglýsingu 
fjármálaráðherra nr. 94/2007, um álagningu opinberra gjalda á árinu 2007 
og nr. 40/2008, um álagningu opinberra gjalda á árinu 2008. Það breyti 
hins vegar ekki því að kröfurnar hafi augljóslega fallið til í lok hvors 
rekstrarárs um sig. Endurákvörðun á opinberum gjöldum, líkt og fram hafi 
farið með umþrættum úrskurði ríkisskattstjóra, 16. júní 2011, hafi farið 
fram í tilefni af nánari skoðun skattyfirvalda á grundvelli skattframtals 
skattaðila og endurskoðun á álagningu þeirri sem á því hafi áður verið 
byggð, sem ekki hafi þá verið talin rétt að öllu leyti. Það breyti hins 
vegar engu um að hlutaðeigandi skattkrafa teljist fallin til í skilningi 
laga við lok þess tímabils er hún varði. Lög setji síðan skattyfirvöldum 
takmörk í tíma um heimildir til endurákvörðunar á álögðum sköttum á 
grundvelli nánari skoðunar, sbr. einkum 97. gr. laga nr. 90/2003, um 
tekjuskatt, og 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. 
Dráttarvaxtareikningur á kröfurnar beri þess skýrt merki að stofndagur 
þeirra sé ekki talinn vera úrskurðardagur, þ.e. sá dagur þegar úrskurður 
ríkisskattstjóra hafi verið kveðinn upp. Samandregið sé unnt að segja að 
krafan sjálf hafi stofnast (fallið til) í síðasta lagi við lok 
rekstraráranna 2006 og 2007, enda þótt skattyfirvöld hafi ekki endanlega 
ákveðið fjárhæð hennar til innheimtu vegna þeirrar endurskoðunar sem 
yfirstandandi hafi verið og hafi verið búin að vera í meira en heilt ár 
áður en stefnanda hafi verið veitt heimild til nauðasamningsumleitana. 
Engu máli skipti í þessu sambandi hvenær skattkrafa ríkissjóðs hafi orðið 
gjaldkræf í skilningi 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en 
samkvæmt því ákvæði falli viðbótarfjárhæðin í gjalddaga tíu dögum eftir að 
gjaldanda hafi verið tilkynnt um hækkunina. Skattayfirvöldum hefði verið í 
lófa lagið að lýsa skilyrtri kröfu til umsjónarmanns nauðasamninga 
stefnanda fyrir lok kröfulýsingarfrests, 13. maí 2009. Ekki skipti þó máli 
hvort skattyfirvöld hafi tilkynnt hina skilyrtu kröfu til umsjónarmanns 
nauðasamninga, sbr. 44. gr. laga nr. 21/1991. Skilyrtri kröfu fylgi ekki 
atkvæðisréttur við nauðasamninga og skattyfirvöld hafi samkvæmt því orðið 
jafnt bundin af niðurstöðum nauðasamnings, hvort sem slík krafa hafi verið 
tilkynnt eða ekki. Skattyfirvöld séu samkvæmt þessu bundin við 
nauðasamninginn um þær skattkröfur á hendur stefnanda sem ákvarðaðar hafi 
verið samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, 16. júní 2011, og 
yfirskattanefndar, 11. desember 2012.
Endurgreiðslukrafa stefnanda samkvæmt 2. tl. dómkrafna hans sé í fyrsta 
lagi á því reist að skattkröfur stefnda á hendur stefnanda samkvæmt 
úrskurði ríkisskattstjóra, 16. júní 2011, vegna rekstraráranna 2006 og 
2007, falli undir nauðasamning stefnanda, sem samþykktur hafi verið með 
úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2009. Hafi stefndi af þeim sökum 
ekki átt rétt til skuldajöfnunar með heildarfjárhæð þeirrar kröfu sem 
stefnandi hafi öðlast á hendur stefnda við álagningu opinberra gjalda 
vegna gjaldársins 2009, sem fram hafi farið um mitt ár 2011, að fjárhæð 
456.010.924 krónur. Við allar greiðslur upp í meintar skattkröfur á hendur 
stefnanda hafi borið að taka mið af nauðasamningnum, sem þýði að upp í 
fyrrgreinda skattkröfu ríkissjóðs nú að fjárhæð 444.260.798 krónur, að 
viðbættum vöxtum til 6. apríl 2009, hafi stefnanda einungis borið að 
greiða eina milljón króna í reiðufé og 5% eftirstöðva með hlutafé í 
félaginu. Þá fjárhæð hafi ríkissjóður fengið greidda úr hendi stefnanda 
með skuldajöfnun ríkissjóðs og hlutabréfum stefnanda, með fyrirvara um 
endanlegar lyktir málsins fyrir yfirskattanefnd. Mismuninn, eða 
455.010.924 krónur, beri stefnda að endurgreiða stefnanda. Tekið skuli 
fram að efnisleg skilyrði skuldajöfnunar hafi ekki verið fyrir hendi þegar 
úrskurður hafi gengið um heimild stefnanda til að leita nauðasamninga, 6. 
apríl 2009, sbr. 5. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi krafa 
stefnanda um endurgreiðslu á hendur ríkissjóði ekki verið gjaldkræf þá. Þá 
byggi stefnandi í öðru lagi á því að skuldajöfnun tollstjóra er fram hafi 
farið 27. júní 2011, hafi í sjálfu sér verið ólögmæt, hvernig sem litið 
kunni að verða á fyrri málsástæðuna. 
Stefnandi byggi á því að ríkisskattstjóri hafi gerst sekur um ólögmæta 
málsmeðferð, þegar hann hafi ákveðið að fresta álagningu á skattframtal 
stefnanda árið 2009. Með því hafi hann komið í veg fyrir að stefnandi 
fengi í hendur endurgreiðslur, sem hann hafi átt í vændum og rétt til 
lögum samkvæmt, þegar álagning á skattframtalið hefði gengið í gegn. Hafi 
ríkisskattstjóri búið þannig um hnútana að embættinu gæfist ráðrúm til 
þess að endurákvarða til hækkunar opinber gjöld vegna gjaldáranna 2007 og 
2008 og virðisaukaskatt árin 2006 og 2007, áður en til endurgreiðslu 
fyrrgreindrar inneignar kæmi. Þegar staðreyndir málsins séu skoðaðar í 
samhengi og þar sem ekki liggi fyrir viðhlítandi eða rökstuddar skýringar 
á þeim óeðlilega langa tíma sem tekið hafi að leggja á skattframtal 
stefnanda árið 2009, telji stefnandi augljóst að ríkisskattstjóri hafi 
tekið ákvörðun um að fresta álagningu árið 2009 í þeim tilgangi einum að 
ná fram hinum umþrætta skuldajöfnuði. Ennfremur sé ljóst að 
ríkisskattstjóri hafi brotið málshraðareglu tekjuskattslaga, sbr. einnig 
1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.
Málsmeðferð í skattamálum byggi á því að skattar séu lagðir á ár hvert og 
að ákveðinn skýrleiki ríki um skattskyldu manna og þar með að 
grundvallarreglur um málshraða séu virtar. Komi regla þessi í raun fram í 
1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem kveðið sé á um að 
kærumeðferð vegna álagningar sé tveir mánuðir frá lokum kærufrests og 
tveir mánuðir við endurákvarðanir frá því að andmæli skattaðila hafi 
borist ríkisskattstjóra, sbr. 5. mgr. 96. gr. sömu laga. Þá skuli 
ríkisskattstjóri hafa lagt fyrir yfirskattanefnd, innan 45 daga frá því að 
honum berist endurrit kæru til nefndarinnar, rökstuðning í málinu fyrir 
hönd gjaldkrefjanda og nauðsynleg gögn, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 
30/1992, um yfirskattanefnd. Skuli yfirskattanefnd úrskurða kærur eins 
fljótt og auðið sé og eigi síðar en sex mánuðum eftir að henni hafi borist 
gögn sem um ræði í 3. mgr. 6. gr., sbr. nánar 4. mgr. 7. gr. sömu laga. 
Verulegur og ólögmætur dráttur hafi orðið á afgreiðslu skattframtals 
stefnanda árið 2009. Sá dráttur hafi verið í þeim augljósa tilgangi að 
innheimtumanni ríkissjóðs væri unnt að skuldajafna ofgreiddum sköttum 
stefnanda á móti meintum skattskuldum í skattrannsóknarmáli því sem til 
meðferðar hafi verið í skattkerfinu og síðar hafi stofnast til í kjölfar 
endurákvörðunar á opinberum gjöldum hans, 16. júní 2011. Þannig hafi 
ólögmætur dráttur ríkisskattstjóra á að afgreiða skattframtal stefnanda 
árið 2009 orðið til þess að ríkissjóður hafi getað þvingað fram 
skuldajöfnuð.
Það sé meginregla stjórnsýsluréttar, að reynist stjórnvöld nota 
lagaheimild í óviðkomandi eða að öðru leyti í ólögmætum tilgangi miðað við 
þann tilgang sem gengið sé út frá í heimildinni, þá sé um efnisannmarka á 
viðkomandi ákvörðun að ræða, sem leiði til þess að hún teljist ógild. Um 
sé að ræða brot á hinni efnislegu aðgreiningarreglu, sem svo sé kölluð. 
Það sé hinn hugræni tilgangur sem að baki ákvörðun liggi sem máli skipti, 
en ekki hvort ákvörðun sé innan ramma laga, hlutrænt séð. Ólögmæt ákvörðun 
hafi því verið tekin, ef tilgangur með ákvörðun sé að ná öðrum markmiðum 
en við sé miðað í viðkomandi lagareglu. Á sama hátt sé augljóst að 
ríkisvaldið geti heldur ekki unnið rétt með því að taka ólögmæta ákvörðun, 
þ.e. um skuldajöfnuð í þessu tilviki. Í þessu sambandi verði að hafa í 
huga að stefnandi hafi skilað skattframtali 2009 hinn 12. október 2009. 
Lokafrestur ríkisskattstjóra til þess að leggja á skatta samkvæmt 
skattframtalinu hafi runnið út 20. apríl 2010. Í fjórtán mánuði umfram 
þann hámarkstíma sem hann hafi haft að lögum hafi ríkisskattstjóri beðið 
með að leggja á skattframtalið en það hafi einmitt gerst níu dögum eftir 
að ríkisskattstjóri hafi kveðið upp úrskurð vegna gjaldáranna 2007 og 
2008. Töf af þessu tagi eigi sér fá ef nokkur fordæmi, þar sem um engin 
vafaatriði í skattskilum stefnanda hafi verið að ræða. Verði ekki betur 
séð en að grunsemdir stefnanda um að ríkisskattstjóri hafi ákveðið að 
leggja ekki á skattframtal hans árið 2009, fyrr en skattrannsóknarstjóri 
ríkisins hefði lokið rannsókn sinni og ríkisskattstjóra hefði gefist 
kostur á að kynna sér skýrslu hans og endurákvarða opinber gjöld vegna 
gjaldáranna 2007 og 2008, eigi við rök að styðjast, allt í þeim ólögmæta 
tilgangi að ná fram skuldajöfnuði sem annars hefði ekki náð fram að ganga. 
Í skýringum ríkisskattstjóra, sbr. bréf, dags. 4. nóvember 2011, á 
síðbúinni álagningu opinberra gjalda á skattframtal árið 2009, komi m.a. 
fram að stjórnvöldum beri að ,,velta fyrir sér, hvort almennt beri að 
horfa til þess að mál séu fremur til lykta leidd samkvæmt tímaramma þó 
lögfestur sé til viðmiðunar, eða hvort við sérstakar aðstæður leiði af 
eðli máls að útkljá verði fyrr það mál, sem ætla má að hafi veruleg áhrif 
á framgang hins.“ Þá telji ríkisskattstjóri að það sé fremur á fræðilegum 
grunni en raunhæfum að forsvaranlegt sé að líta framhjá fyrirliggjandi 
staðreyndum af þessu tagi auk þess sem ljóst hafi verið eftir að skýrsla 
skattrannsóknarstjóra hafi legið fyrir ,,að rík krafa var á hendur embætti 
ríkisskattstjóra að gæta ýtrustu varfærni í meðferð opinbers fjár, enda 
ljóst að skattskil félagsins höfðu verið alvarlega athugunarverð.“ Telji 
ríkisskattstjóri að líta verði á ,,brot á viðmiðunarreglum sem fremur 
fræðilegt úrlausnarefni, en raunhæft.“ Samkvæmt framangreindu sé það 
beinlínis viðurkennt að tekin hafi verið ákvörðun um að fresta álagningu á 
skattframtal árið 2009. Hafi ríkisskattstjóri m.ö.o. viðurkennt að hann 
hafi talið það skyldu sína að leggja ekki á skattframtal stefnanda árið 
2009, fyrr en búið væri að stofna skattkröfu í tekjubókhaldskerfi ríkisins 
til þess að öðru stjórnvaldi, innheimtumanni ríkissjóðs, væri kleift að 
skuldajafna skattkröfunni á móti inneigninni. Með þeirri ákvörðun hafi 
ríkisskattstjóri beitt valdheimildum sínum í ólögmætum tilgangi, er leiði 
til þess að fella beri þann skuldajöfnuð er fram hafi farið 27. júní 2011 
úr gildi. Þá skuli það tekið fram að skattframtal 2009 hafi aldrei verið 
til rannsóknar hjá skattyfirvöldum, hvorki í upphafi rannsóknar, meðan á 
rannsókn hafi staðið né síðar. Þegar skattrannsóknarstjóri hafi sent 
ríkisskattstjóra lokaskýrslu sína um rannsókn málsins 6. desember 2010, 
hefði ríkisskattstjóra í síðasta lagi mátt vera ljóst að skattframtal árið 
2009 væri ekki þar til meðferðar. Engu að síður og þrátt fyrir 
eftirrekstur stefnanda og endurskoðenda hans með mörgum samtölum við 
starfsmenn embættisins hafi ríkisskattstjóri, án nokkurra skýringa, haldið 
skattframtali 2009 óafgreiddu í 6 mánuði eftir að skattrannsóknarstjóri 
ríkisins hafi lokið rannsókn sinni. Þá skuli tekið fram að lögbundnir 
tímafrestir stjórnvalda séu ekki gerðir fyrir stjórnvöld heldur snúi að 
borgurunum. Almenn regla stjórnsýsluréttar sé sú að ákvarðanir í málum 
skuli teknar svo fljótt sem unnt sé, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga 
nr. 37/1993. Víða í löggjöf hafi löggjafinn þó talið að slík almenn regla 
dugi ekki, og eigi það einkum við þegar um sé að ræða hagsmuni sem varði 
borgarana miklu að fá úrlausn um án óhæfilegs dráttar svo sem þegar um sé 
að ræða ákvarðanir sem hafi fjárhagsleg áhrif. Séu fyrrgreind ákvæði sem 
fram komi í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og fleiri lögum um skatta og 
gjöld einmitt sett í þeim tilgangi. Reglur um málshraða séu með öðrum 
orðum settar til verndar borgurunum gangvart hugsanlegum seinagangi 
stjórnvalda en ekki til verndar ætluðum hagsmunum hins opinbera, í þessu 
tilviki ríkissjóðs. Þá fái rökstuðningur tollstjóra, sem fram komi í bréfi 
hans, 18. október 2011, um lögmæti umræddrar skuldajöfnunar ekki staðist, 
þar sem segi eftirfarandi: ,,Vert er að benda á að þó álagning vegna 
skattframtals 2009 hefði ekki dregist eins og haldið er fram í bréfi dags. 
26. september 2011 hefði lögmætur skuldajöfnuður eigi að síður náð fram að 
ganga og vísast um þá afstöðu til hæstaréttardóms 1997/591 sem áður var 
getið í bréfi yðar dags. 23. ágúst 2011.“ Ef lagt hefði verið á 
skattframtal stefnanda árið 2009 innan eðlilegs tíma, miðað við 
framtalsskil félagsins, þá hefði engin skattkrafa verið fyrir hendi til 
þess að skuldajafna á móti inneigninni. Skattkrafa tollstjóra hafi ekki 
fallið í gjalddaga fyrr en tíu dögum eftir að stefnanda hafi verið 
tilkynnt um hækkun gjalda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, 16. júní 
2011. Þetta sé einmitt grundvallaratriði í málinu sem virðist alveg hafa 
farið fram hjá tollstjóra við skoðun hans á málsatvikum. Hvað 
dráttarvaxtakröfu stefnanda varði sé þess krafist að endurkrafin 
stefnufjárhæð greidd með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 
38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. apríl 2010, til greiðsludags, en 
21. apríl 2010 sé sá dagur sem frestur ríkisskattstjóra til þess að leggja 
á skattframtal stefnanda árið 2009, hafi runnið út. Til vara sé þess 
krafist að fjárhæðin verði endurgreidd með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. 
gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 27. júní 2011, til 
greiðsludags, en 27. júní 2011 sé sá dagur er hin umþrætta skuldajöfnun 
hafi farið fram. Stefnandi byggi kröfur sínar á eftirfarandi lagaákvæðum: 
28., 29. og 31. gr. um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, almennum reglum 
kröfuréttar um skuldajöfnuð, 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu 
nr. 38/2001, 96. gr., 99. og 112. gr., laga um tekjuskatt nr. 90/2003, 6. 
og 7. gr. laga nr. 30/1992, 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og 
almennum reglum stjórnsýsluréttar. Krafa um málskostnað sé byggð á XXI. 
kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 1. mgr. 130. gr., 
sbr. 4. mgr. 129. gr. laganna.
Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda
Stefndi kveður óumdeilt að skattar stefnanda vegna rekstaráranna 2006 og 
2007 hafi verið endurákvarðaðir að lokinni rannsókn skattrannsóknarstjóra. 
Við endurákvörðun ríkisskattstjóra, 16. júní 2011, hafi skattar stefnanda 
verið hækkaðir frá upphaflegri álagningu. Af áralangri dómaframkvæmd verði 
ráðið að ef skuld samkvæmt endurákvörðun sé hærri en skuld samkvæmt 
upphaflegri álagningu þá leiði þess háttar endurákvörðun af sér nýjan 
gjalddaga. Hinn nýi gjalddagi sé sá dagur sem gjaldanda sé tilkynnt um 
endurákvörðunina. Skattkrafan samkvæmt endur-álagningunni falli í 
gjalddaga tíu dögum eftir að gjaldanda sé tilkynnt um hækkunina. Í samræmi 
við þessa dómframkvæmd hafi skattkrafa stefnda á hendur stefnanda stofnast 
16. júní 2011. Í úrskurði ríkisskattstjóra komi fram að skattkrafan sé 
tilkomin vegna endurákvörðunar á grundvelli 2. mgr. 26. gr. laga nr. 
50/1988. Þar komi einnig fram að stefnandi hafi skilað inn 
virðisaukaskattskýrslum 18. október 2010, vegna kaupa á þjónustu erlendis 
frá rekstrarárin 2006 og 2007. Stefndi fái ekki betur séð en að 
endurákvörðun til hækkunar virðisaukaskattsins miðist við þær skýrslur. 
Þannig hafi ríkisskattstjóri endurákvarðað virðisaukaskatt ársins 2006 til 
hækkunar um 94.343.889 krónur og 409.887.880 krónur vegna ársins 2007. Í 
dómaframkvæmd sé að finna fordæmi þar sem litið sé svo á að endurákvörðun 
á grundvelli 25. gr. og 26. gr. laga nr. 50/1988 sé krafa sem fallið hafi 
í gjalddaga samkvæmt 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 5. mgr. 49. 
gr. laga nr. 50/1988. Stefndi telji, þegar af þessari ástæðu, að ákvæði 6. 
mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988 komi 
í veg fyrir að hin umþrætta krafa geti hafa verið fallin til í lok 
uppgjörstímabila eða í lok rekstraráranna 2006 og 2007 eins og stefnandi 
haldi fram og því sé málsástæðu stefnanda sem byggi á þessum skilningi 
mótmælt sem rangri. Nauðasamningur stefnanda hafi verið staðfestur 15. 
júní 2009 en skattkrafa stefnda á hendur honum hafi ekki stofnast fyrr en 
réttum tveimur árum síðar. Skattkrafa stefnda á hendur stefnanda eigi því 
ekki undir nauðasamninginn en skv. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 
um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi nauðasamningur ekki áhrif á kröfur sem hafi 
orðið til eftir að úrskurður hafi gengið um heimild skuldarans til að 
leita nauðasamnings. Þeirri málsástæðu stefnanda að stefndi sé bundinn við 
nauðsamninginn sem samningskröfuhafi sé því mótmælt sem rangri. 
Viðurkenningarkröfu stefnanda um að vextir fram til 6. apríl 2009 falli 
undir nauðasamninginn sé einnig mótmælt með vísan til framangreinds. 
Sérstaklega sé mótmælt sem rangri og órökstuddri þeirri málsástæðu 
stefnanda að kröfur vegna skatta eða opinberra gjalda falli ekki undir 28. 
gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. heldur undir 29. gr. þeirra 
laga. Þeirri málsástæðu stefnanda að hinar umþrættu skattkröfur hafi 
fallið til í skilningi laga við lok hvors rekstarárs um sig, sé einnig 
mótmælt sem rangri og ósannaðri. Þeir dómar sem stefnandi vísi til í þeim 
efnum eigi augljóslega ekki við þegar skattar séu endurákvarðaðir til 
hækkunar, eins og raunin hafi verið í tilviki stefnanda. Málsástæðu 
stefnanda er lúti að því að dráttarvaxtareikningur á kröfurnar beri þess 
skýr merki að stofndagur krafnanna sé ekki talinn vera úrskurðardagur, sé 
mótmælt sem rangri og órökstuddri. Við álagningu skattkröfu sé hún færð 
inn í tekjubókhaldskerfi stefnda á þau tímabil sem hún sé sprottin af. 
Dráttarvextir reiknist frá þeim tíma. Stefnandi eigi ekki að vera betur 
settur vegna vanrækslu á framtalsskilum og því að standa ekki skil á 
virðisaukaskatti samkvæmt þeim. Dráttarvaxtareikningur kröfunnar sé því 
eðlilegur og hafi ekki með það að gera hvenær krafan hafi stofnast í 
skilningi skattalaga og dómaframkvæmdar. 
Stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu til endurgreiðslu inneignar á meðan 
hann sé í skuld við ríkissjóð. Í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 45/1987 um 
staðgreiðslu opinberra gjalda sé kveðið á um að Fjársýsla ríkisins annist 
um endurgreiðslu fyrir hönd ríkissjóðs og sveitarfélaga eftir að 
skuldajöfnun á móti gjaldföllnum sköttum til ríkis og sveitarfélaga hafi 
farið fram. Stefnda hafi því verið bæði rétt og skylt að skuldajafna 
inneign stefnanda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra uppkveðnum 24. júní 
2011 til lækkunar á skattskuldum hans samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 
frá 16. júní 2011. 
Skattkrafa stefnda hafi orðið til 16. júní 2011. Inneign stefnanda í 
staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts hafi myndast 24. júní 2011. 
Skuldajöfnuður sem deilt sé um hafi verið framkvæmdur af Tollstjóranum í 
Reykjavík 27. júní 2011, þegar skattkrafa á hendur stefnanda hafi verið 
fallin í gjalddaga í skilningi 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003. Skilyrði 
skuldajöfnunar samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 4. gr. laga 
nr. 135/2002 hafi því verið uppfyllt, þegar skuldajöfnuðurinn hafi átt sér 
stað, 27. júní 2011. Málsástæðu stefnanda um að skilyrði skuldajöfnunar 
hafi ekki verið fyrir hendi við upphaf nauðasamningsumleitana sé því 
mótmælt sem rangri enda ljóst að hvorug krafan hafi þá verið orðin til. 
Öllum málsástæðum stefnanda sem lúti að því að skattkrafa stefnda hafi 
fallið undir nauðasamninginn, sem óviss krafa, sé mótmælt sem röngum. 
Áskilnaður 31. gr. laga nr. 21/1991 lúti að því að krafa hafi verið orðin 
til við gerð nauðasamnings en ekki hafi verið vitað um hana eða skilyrði 
fyrir henni hafi ekki verið komin fram. Skattkrafa stefnda hafi ekki verið 
til þegar nauðasamningur stefnanda hafi verið staðfestur. Skattyfirvöld 
hafi verið grandlaus um skyldu stefnanda til að standa skil á 
virðisaukaskatti vegna kaupa á þjónustu frá útlöndum þau ár sem um ræði. 
Engar upplýsingar, gögn né nokkrar aðrar forsendur hafi verið fyrir hendi 
sem bent hafi til skattskyldu stefnanda vegna þessara gjalda vegna áranna 
2006 og 2007, enda hafi hann ekki verið skráður í opinberum skrám sem 
félag í fjárfestingarstarfsemi, en sú starfsemi sé ekki 
virðisaukaskattsskyld. Skattyfirvöld hafi því ekki haft neinn grundvöll 
til álagningar skattsins og ómögulegt hafi verið fyrir tollstjóra að lýsa 
öðrum kröfum en skuld vegna bifreiðagjalda, sem einu skuld stefnanda við 
nauðasamninginn. Rannsókn skattrannsóknarstjóra á málefnum stefnanda hafi 
hafist í nóvember 2008. Rannsókn mála hjá skattrannsóknarstjóra sé ígildi 
lögreglurannsóknar. Þegar skattrannsóknarstjóri hafi lokið rannsókn 
teljist mál að fullu upplýst og samhliða liggi fyrir mat á fjárhæðum 
undandreginna skattstofna. Af gögnum málsins megi ráða að það hafi því 
verið fyrst eftir lok rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á 
skattskilum stefnanda, 3. desember 2010, sem ríkisskattstjóri hafi haft 
tök á að boða breytingar og leggja á þau gjöld sem um sé deilt í málinu. 
Því verði að leggja til grundvallar og þyki raunar blasa við að 
skattyfirvöld hafi ekki getað vitað um virðisaukaskattskyldu stefnanda við 
upphaf nauðasamningsumleitana hans 6. apríl 2009. Málsástæða stefnanda 
þess efnis að stefnda hafi verið í lófa lagið að lýsa skilyrtri kröfu til 
umsjónarmanns nauðasamnings stefnanda, fyrir lok kröfulýsingarfrest þann 
13. maí 2009, eigi sér þar af leiðandi ekki stoð og sé henni mótmælt sem 
rangri. Í þessu sambandi vilji stefndi árétta að rannsókn 
skattrannsóknarstjóra hafi leitt í ljós meint brot á tekjuskattslögum nr. 
90/2003, virðisaukaskattslögum nr. 50/1988, lögum nr. 45/1987 um 
staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. lög nr. 113/1990 um tryggingagjald og 
lögum nr. 145/1994 um bókhald. Rannsókn á ætluðum skattsvikum stefnanda 
séu nú á forræði sérstaks saksóknara, sbr. lög nr. 82/2011. Málsástæðum 
stefnanda, er varði málsmeðferð stefnda við álagningu opinberra gjalda 
gjaldárið 2009, sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Skattframtali 
stefnanda fyrir gjaldárið 2009 vegna rekstarársins 2008 hafi ekki verið 
skilað fyrr en 12. október 2009, að liðnum kærufresti lögaðila það árið. 
Við slíkar aðstæður skuli skattframtal sæta kærumeðferð samkvæmt 2. ml., 
1. mgr. 99. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003. Ekki hafi reynst unnt að 
ljúka afgreiðslu málsins innan tímamarka en afgreiðslu þess hafi lokið 24. 
júní 2011. Stefndi hafi gætt að málsmeðferðarreglum og hafi stefnanda 
verið tilkynnt um tafir á afgreiðslu og að þær stöfuðu af miklum önnum hjá 
embætti ríkisskattstjóra. Skattkæra stefnanda hafi verið afgreidd samkvæmt 
efni sínu, þótt afgreiðslan hafi verið síðar en stefnandi hafi gert ráð 
fyrir. Með vísan til þessa sé því mótmælt að málshraðaregla 
stjórnsýslulaga hafi verið brotin eða að ólögmætur dráttur hafi orðið á 
afgreiðslu á kæru stefnanda. Þá geti stefndi ekki látið hjá líða að 
mótmæla þeim dylgjum sem settar hafi verið fram í stefnu. Því sé 
algjörlega vísað á bug að starfsmenn stefnda geri sér það að leik að 
fresta afgreiðslu einstakra úrlausnarmála eftir hentugleikum og misbeiti 
valdi sínu.
Stefndi geri athugasemd við fjárhæð stefnukröfu. Í 545.225.977 króna 
viðurkenningarkröfu stefnanda séu m.a. fólgin vanskil á staðgreiðslu að 
fjárhæð 4.122.695 krónur. Stefnandi hafi ekki gert grein fyrir því á hvaða 
grundvelli hann telji sig fara með aðild að þeirri kröfu. Fjárhæð 
viðurkenningarkröfunnar sé því mótmælt sem rangri. Stefndi hafi ávallt 
mótmælt kröfum stefnanda um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem 
skuldajafnað hafi verið á móti endurákvörðuðum á virðisaukaskatti árin 
2006 og 2007 og opinberum gjöldum stefnanda gjaldárin 2007 og 2008. 
Stefndi hafi aldrei viðurkennt meintan rétt stefnanda til að greiða 
skattskuldir sínar á grundvelli nauðasamningsins. Vilji stefndi árétta að 
sú afstaða hans hafi í engu breyst, þótt stefnandi telji sig hafa greitt 
skattskuld sína að fullu með hlutabréfum í Stoðum hf. Nauðasamningur 
stefnanda sé með öllu óskuldbindandi fyrir stefnda. Einhliða greiðsla 
stefnanda á grundvelli nauðasamningsins sé sömuleiðis óskuldbindandi fyrir 
stefnda og breyti ekki réttarstöðu stefnanda. Dráttarvaxtakröfu stefnanda 
sé mótmælt. Stefnandi byggi kröfu um dráttarvexti á lögum nr. 38/2001 um 
vexti og verðtryggingu. Stefndi fái ekki séð að dráttarvaxtakrafa 
stefnanda, sem miðuð sé við 21. apríl 2010, sæki stoð í þau lög, enda hafi 
gjalddagi kröfunnar sannanlega verið síðar. Verði fallist á 
dráttarvaxtakröfu stefnanda telji stefndi að miða beri við síðara 
tímamark. Hvað lagarök varði vísi stefndi til áðurgreindra laga er varði 
sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð 
einkamála nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstaða
Viðurkenningarkrafa stefnanda í máli þessu er á því reist að skattkröfur 
teljist „falla til“ við lok þess uppgjörstímabils sem þær varði, hvort 
heldur það sé í lok uppgjörstímabils í tilviki virðisaukaskatts eða 
rekstrarárs í tilviki opinberra gjalda. Hin upphaflega skattkrafa í máli 
þessu hafi verið fastákveðin við reglulega álagningu þ.e. 31. október árin 
2007 og 2008, sbr. auglýsingu fjármálaráðherra nr. 94/2007, um álagningu 
opinberra gjalda á árinu 2007 og nr. 40/2008, um álagningu opinberra 
gjalda á árinu 2008. Það breyti hins vegar ekki því að kröfurnar hafi 
augljóslega fallið til í lok hvors rekstrarárs um sig. Endurákvörðun á 
opinberum gjöldum, líkt og fram hafi farið með umþrættum úrskurði 
ríkisskattstjóra frá 16. júní 2011 og úrskurði yfirskattanefndar frá 11. 
desember 2012, hafi farið fram í tilefni af nánari skoðun skattyfirvalda á 
grundvelli skattframtals skattaðila og endurskoðun á álagningu þeirri sem 
á því hafi áður verið byggð. Það breyti hins vegar engu um að 
hlutaðeigandi skattkrafa teljist hafa fallið til í skilningi laga við lok 
þess tímabils er hún varði. Lög setji síðan skattyfirvöldum takmörk í tíma 
um heimildir til endurákvörðunar á álögðum sköttum á grundvelli nánari 
skoðunar, sbr. einkum 97. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og 26. gr. 
laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Dráttarvaxtareikningur á kröfurnar 
beri þess skýrt merki að stofndagur þeirra sé ekki talinn vera 
úrskurðardagur, þ.e. sá dagur þegar úrskurður ríkisskattstjóra hafi verið 
kveðinn upp.
Af hálfu stefnda er hvað viðurkenningarkröfu stefnanda varðar á því byggt 
að umræddar skattkröfur hafi stofnast við úrskurð ríkisskattstjóra 16. 
júní 2011, sbr. úrskurð yfirskattanefndar 11. janúar 2012, og hafi 
kröfurnar því ekki fallið undir nauðasamning stefnanda, sem staðfestur 
hafi verið af Héraðsdómi Reykjavíkur 15. júní 2009. 
Eins og rakið hefur verið voru opinber gjöld stefnanda vegna gjaldáranna 
2007 og 2008 endurákvörðuð til hækkunar með úrskurði ríkisskattstjóra 16. 
júní 2011 og síðar úrskurði yfirskattanefndar 11. desember 2012. Aðila 
greinir á um hvort þær skattkröfur sem lagðar voru á stefnanda með 
framangreindum úrskurðum hafi fallið undir nauðasamning stefnanda, sem 
staðfestur var af Héraðsdómi Reykjavíkur 15. júní 2009 eða stofnast við 
uppkvaðningu úrskurðanna og því fallið utan nauðasamningsins.
Skattkröfur eru ekki undanþegnar nauðasamningum skuldara skv. 28. gr. laga 
nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og teljast þær almennt til 
samningskrafna samkvæmt 29. gr. laganna. Nauðasamningur hefur ekki áhrif á 
kröfur sem orðið hafa til eftir að úrskurður gekk um heimild skuldara til 
að leita nauðasamninga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991. 
Samkvæmt athugasemdum með 28. gr. frumvarps að lögunum er með tilurð 
krafna átt við stofnunartíma skuldbindinga og felur reglan því efnislega í 
sér að nauðasamningur hafi ekki áhrif á kröfur sem stofnast hafa eftir að 
úrskurður gengur um heimild skuldara til að leita nauðasamninga.
Eins og rakið hefur verið hóf Skattstjórinn í Reykjavík, 12. mars 2008, 
skoðun á bókhaldi og skattskilum stefnanda m.a. vegna rekstraráranna 2006 
og 2007. Leiddi sú rannsókn til endurákvörðunar á opinberum gjöldum 
stefnanda vegna þessara ára, með úrskurði ríkisskattstjóra, 16. júní 2011. 
Þeim úrskurði var skotið til yfirskattanefndar sem kvað upp úrskurð í 
málinu 11. desember 2012.
Stefnandi byggir á því að framangreindrar skattkröfur hafi verið skilyrtar 
kröfur í merkingu 31. gr. laga nr. 21/1991 og stofnast í lok 
rekstraráranna 2006 og 2007 og því fallið undir nauðasamning stefnanda. 
Álagning opinbera gjalda stefnanda vegna rekstraráranna 2006 og 2007 hafði 
farið fram áður en stefnandi hafi fengið heimild til nauðasamninga, 6. 
apríl 2009.
Skattkröfur á hendur stefnanda vegna rekstraráranna 2006 og 2007 
stofnuðust upphaflega við álagningu vegna þessara ára en það var annars 
vegar 31. október 2007 vegna rekstrarársins 2006, sbr. auglýsingu 
fjármálaráðherra nr. 94/2007, um álagningu opinberra gjalda á árinu 2007 
og hins vegar 31. október 2008 vegna rekstrarársins 2007, sbr. auglýsingu 
fjármálaráðherra nr. 40/2008, um álagningu opinberra gjalda á árinu 2008. 
Með úrskurði ríkisskattstjóra, 16. júní 2011, voru eftirtaldar breytingar 
gerðar á framangreindum álagningum. Virðisaukaskattur vegna ársins 2006 
var hækkaður um 89.818.963 krónur, álag á virðisaukaskatt vegna ársins 
2006 var hækkað um 8.981.899 krónur, virðisaukaskattur vegna ársins 2007 
var hækkaður um 406.941.109 krónur, álag á virðisaukaskatt vegna ársins 
2007 var hækkað um 40.694.114 krónur, tekjuskattur gjaldárið 2007 var 
lækkaður um 12.418.700 krónur, tryggingagjald vegna gjaldársins 2007 var 
hækkað um 719.250 krónur, tryggingagjald vegna gjaldársins 2008 var hækkað 
um 1.046.741 krónu, staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launagreiðslna á 
árinu 2006 var hækkuð um 4.122.695 krónur og álag skv. 1. tl. 2. mgr. 28. 
gr. laga nr. 45/1987 hækkað um 5.319.906 krónur. Samtals var hækkunin 
545.225.977 krónur. Með úrskurði yfirskattanefndar voru eftirtaldar 
breytingar gerðar á úrskurði ríkisskattstjóra. Virðisaukaskattur vegna 
ársins 2006 var lækkaður um 39.931.670 krónur, álag á virðisaukaskatt 
vegna ársins 2006 var lækkað um 3.993.167 krónur, virðisaukaskattur vegna 
ársins 2007 var lækkaður um 58.389.130 krónur, álag á virðisaukaskatt 
vegna ársins 2007 var lækkað um 5.838.913 krónur og tekjuskattur vegna 
gjaldársins 2007 var hækkaður um 7.187.701 krónu. Samtals var lækkun 
yfirskattanefndar m.v. úrskurð ríkisskattstjóra 100.965.179 krónur. 
Niðurstaða yfirskattanefndar fól samkvæmt framangreindu í sér hækkun á 
gjöldum stefnanda um samtals 444.260.798 krónur miðað við álagningar 31. 
október 2007 og 31. október 2008 vegna rekstraráranna 2006 og 2007.
Samkvæmt viðurkenndri lögfræðilegri skilgreiningu hugtaksins krafa, 
stofnuðust framangreindar viðbótarskattkröfur á hendur stefnanda, að 
fjárhæð 444.260.798 krónur, við úrskurð ríkisskattstjóra 16. júní 2011, að 
teknu tilliti til síðari breytinga samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar, 
11. desember 2012. Er ekkert í lögum eða öðrum réttarheimildum sem styður 
þá skoðun stefnanda að kröfurnar hafi stofnast í lok rekstraráranna 2006 
og 2007 enda ekki verið sýnt fram á af stefnanda að stefndi hafi í lok 
umræddra rekstrarára haft undir höndum upplýsingar og/ eða önnur gögn sem 
sýnt hafi fram á tilvist þeirra viðbótarskattkrafna sem staðfestar voru 
með úrskurði yfirskattanefndar 11. desember 2012, sbr. 31. gr. laga nr. 
21/1991. Þá styðst framangreind niðurstaða um stofntíma umræddra 
viðbótarskattkrafna við 6. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, 
sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem mælt er 
svo fyrir að séu skattar gjaldanda hækkaðir eftir álagningu falli 
viðbótarfjárhæðin í gjalddaga tíu dögum eftir að gjaldanda hafi verið 
tilkynnt um hækkunina. Með vísan til framanritaðs verður stefndi sýknaður 
af viðurkenningarkröfu stefnanda.
Endurgreiðslukrafa stefnanda, samkvæmt 2. tl. dómkrafna hans, er í fyrsta 
lagi á því reist að skattkröfur stefnda á hendur honum, samkvæmt úrskurði 
ríkisskattstjóra, 16. júní 2011, vegna rekstraráranna 2006 og 2007, sbr. 
úrskurð yfirskattanefndar frá 11. desember 2011, hafi fallið undir 
nauðasamning stefnanda, sem samþykktur hafi verið með úrskurði Héraðsdóms 
Reykjavíkur 15. júní 2009. Hafi stefndi af þeim sökum ekki átt rétt til 
skuldajöfnunar með heildarfjárhæð þeirrar kröfu sem stefnandi hafi öðlast 
á hendur stefnda við álagningu opinberra gjalda vegna gjaldársins 2009, 
sem fram hafi farið um mitt ár 2011, að fjárhæð 456.010.924 krónur.
Eins og rakið hefur verið er það niðurstaða dómsins að skattkröfur stefnda 
samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, 16. júní 2011, sbr. úrskurð 
yfirskattanefndar, 11. desember 2012, hafi ekki fallið undir nauðasamning 
stefnanda, sem staðfestur hafi verið af Héraðsdómi Reykjavíkur 15. júní 
2009. Er framangreindri málsástæðu stefnanda, til stuðnings 
endurgreiðslukröfu hans, þegar af þeirri ástæðu hafnað.
Stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína í öðru lagi á því að efnisleg 
skilyrði skuldajafnaðar hafi ekki verið fyrir hendi þegar úrskurður hafi 
gengið um heimild stefnanda til að leita nauðasamninga, 6. apríl 2009, 
sbr. 5. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi krafa stefnanda um 
endurgreiðslu á hendur ríkissjóði ekki verið gjaldkræf á því tímamarki. Af 
hálfu stefnda er hvað framangreinda málsástæðu stefnanda varðar á því 
byggt að stefnandi hafi ekki átt lögvarða kröfu til endurgreiðslu 
inneignar á meðan hann hafi verið í skuld við ríkissjóð. Í 2. mgr. 36. gr. 
laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda sé kveðið á um að 
Fjársýsla ríkisins annist um endurgreiðslu fyrir hönd ríkissjóðs og 
sveitarfélaga eftir að skuldajöfnun á móti gjaldföllnum sköttum til ríkis 
og sveitarfélaga hafi farið fram. Stefnda hafi því verið bæði rétt og 
skylt að skuldajafna inneign stefnanda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 
uppkveðnum 24. júní 2011 til lækkunar á skattskuldum hans samkvæmt 
úrskurði ríkisskattstjóra frá 16. júní 2011. Stefndi byggi á því að 
skattkrafa stefnda hafi orðið til 16. júní 2011. Inneign stefnanda í 
staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts hafi myndast 24. júní 2011. 
Skuldajöfnuður hafi verið framkvæmdur af Tollstjóranum í Reykjavík 27. 
júní 2011, þegar skattkrafa á hendur stefnanda hafi verið fallin í 
gjalddaga í skilningi 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003. Skilyrði 
skuldajöfnunar samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 4. gr. laga 
nr. 135/2002 hafi því verið uppfyllt þegar skuldajöfnuðurinn hafi átt sér 
stað, 27. júní 2011.
Fallist er á það með stefnda að skilyrði til skuldajafnaðar hafi verið til 
staðar 27. júní 2011, þegar tollstjóri jafnaði inneign stefnanda að 
fjárhæð 493.480.310 krónur, samkvæmt álagningu ríkisskattstjóra, 24. júní 
2011, vegna gjaldársins 2009, á móti skattkröfum samkvæmt úrskurði 
ríkisskattstjóra, 16. júní 2011, að fjárhæð 545.225.977 krónur. Báðar 
kröfurnar voru gjaldfallnar 27. júní og skilyrði skuldajöfnunar samkvæmt 
2. mgr. 36. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 4. gr. laga nr. 135/2002 til 
staðar. Er umræddri málsástæðu stefnanda því hafnað. 
Stefnandi byggir í þriðja lagi á því að skuldajöfnun tollstjóra 27. júní 
2011, hafi verið ólögmæt. Ríkisskattstjóri hafi gerst sekur um ólögmæta 
málsmeðferð, þegar hann hafi ákveðið að fresta álagningu á skattframtal 
stefnanda árið 2009. Með því hafi hann komið í veg fyrir að stefnandi 
fengi í hendur endurgreiðslur sem hann hafi átt í vændum og rétt til lögum 
samkvæmt, þegar álagning á skattframtalið hefði gengið í gegn. Hafi 
ríkisskattstjóri búið þannig um hnútana að embættinu gæfist ráðrúm til 
þess að endurákvarða opinber gjöld vegna gjaldáranna 2007 og 2008 og 
virðisaukaskatt árin 2006 og 2007, til hækkunar, áður en til endurgreiðslu 
fyrrgreindrar inneignar kæmi. Þegar staðreyndir málsins séu skoðaðar í 
samhengi og þar sem ekki liggi fyrir viðhlítandi eða rökstuddar skýringar 
á þeim óeðlilega langa tíma sem tekið hafi að leggja á skattframtal 
stefnanda árið 2009, telji stefnandi augljóst að ríkisskattstjóri hafi 
tekið ákvörðun um að fresta álagningu árið 2009 í þeim tilgangi einum að 
ná fram hinum umþrætta skuldajöfnuði. Hafi það falið í sér brot á hinni 
efnislegu aðgreiningarreglu stjórnsýsluréttar og eigi að leiða til þess að 
skuldajöfuðurinn, sem framkvæmdur hafi verið 27. júní 2011, verði felldur 
úr gildi. Ennfremur sé ljóst að ríkisskattstjóri hafi brotið 
málshraðareglu tekjuskattslaga, sbr. einnig 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga 
nr.37/1993 enda hafi verulegur og ólögmætur dráttur orðið á afgreiðslu 
skattframtals stefnanda. Hljóti það að leiða til sömu niðurstöðu.
Af hálfu stefnda er framangreindum málsástæðum stefnanda mótmælt sem 
röngum og ósönnuðum. Skattframtali stefnanda fyrir gjaldárið 2009, vegna 
rekstarársins 2008, hafi ekki verið skilað fyrr en 12. október 2009, að 
liðnum kærufresti lögaðila það árið. Við slíkar aðstæður skuli 
skattframtal sæta kærumeðferð samkvæmt 2. ml., 1. mgr. 99. gr. 
tekjuskattslaga nr. 90/2003. Ekki hafi reynst unnt að ljúka afgreiðslu 
málsins innan tímamarka en afgreiðslu þess hafi lokið 24. júní 2011. 
Stefndi hafi gætt að málsmeðferðarreglum og hafi stefnanda verið tilkynnt 
um tafir á afgreiðslu og að þær stöfuðu af miklum önnum hjá embætti 
ríkisskattstjóra. Skattkæra stefnanda hafi verið afgreidd samkvæmt efni 
sínu, þótt afgreiðslan hafi verið síðar en stefnandi hafi gert ráð fyrir. 
Með vísan til þessa sé því mótmælt að málshraðaregla stjórnsýslulaga hafi 
verið brotin eða að ólögmætur dráttur hafi orðið á afgreiðslu á kæru 
stefnanda. Því sé algjörlega vísað á bug að starfsmenn stefnda geri sér 
það að leik að fresta afgreiðslu einstakra úrlausnarmála eftir 
hentugleikum og misbeiti valdi sínu.
Guðrún J. Jónsdóttir, sviðsstjóri hjá embætti ríkisskattstjóra, gaf 
skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Spurð um ástæður þess að jafn 
langur tími hafi liðið og raun ber vitni frá móttöku skattframtals 
stefnanda, 12. október 2009, til úrskurðar ríkisskattstjóra, 24. júní 
2011, svaraði hún því til að við sameiningu skattstjóraembætta samkvæmt 
lögum nr. 136/2009 og yfirtöku ríkisskattstjóra á öllum óloknum málum 
skattstjóra, á hvaða stigi sem þau hafi staðið, 1. janúar 2010, hafi komið 
í ljós að mikill fjöldi mála, allt frá árinu 2004, hafi verið óafgreiddur. 
Hafi mál verið afgreidd af embætti ríkisskattstjóra í tímaröð og af þeim 
ástæðum hafi mál stefnanda ekki verið endanlega afgreitt fyrr en í júní 
2011. Engar aðrar ástæður hafi legið að baki því hversu langan tíma 
afgreiðsla málsins hafi tekið og hafnaði hún því alfarið, aðspurð, að 
ríkisskattstjóri hefði viljandi tafið afgreiðslu málsins í þeim tilgangi 
að tollstjóri gæti skuldajafnað innstæðu stefnanda á móti skattkröfum 
samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 16. júní.
Fyrir liggur að verulegur dráttur varð á afgreiðslu skattkæru stefnanda, 
sem móttekin var eins og rakið hefur verið af Skattstjóranum í Reykjavík 
12. október 2009. Má fallast á með stefnanda að dráttur á afgreiðslu 
kærunnar brjóti í bága við málshraðareglur stjórnsýslunnar, sbr. 9. gr. 
stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðar meginreglur á sviði 
stjórnsýsluréttar. Hins vegar hefur stefnandi ekki hrundið þeirri skýringu 
stefnda að tafir á afgreiðslu skattkærunnar sé eingöngu að rekja til 
mikils málafjölda og vinnuálags hjá embætti ríkisskattstjóra í framhaldi 
af kerfisbreytingu innan skattkerfisins sem hrundið var í framkvæmd frá og 
með 1. janúar 2010 og áður hefur verið lýst. Þá liggur fyrir að 
ríkisskattstjóri tilkynnti stefnanda með bréfi, 4. mars 2011, um tafir á 
afgreiðslu á skattkæru stefnda og ástæður hennar, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga 
nr. 37/1993. Tafir á afgreiðslu mála innan stjórnsýslunnar geta eftir 
atvikum bakað hinu opinbera þ.m.t. ríkinu bótaskyldu. Hins vegar verður 
ekki fallist á það með stefnanda að tafir á afgreiðslu mála, þar á meðal 
innan skattkerfisins, eigi almennt að valda ógildi ákvörðunar nema alveg 
sérstakar ástæður komi til. Verður ekki séð að slíkar ástæður séu til 
staðar í þessu máli og verður að telja að hagmunir stefnanda séu, hvað 
þetta varðar, nægilega tryggðir með því réttarúrræði sem áður getur. Með 
vísan til framanritaðs verður ekki fallist á það með stefnanda að dráttur 
á afgreiðslu umræddrar skattkæru stefnanda standi í vegi fyrir þeim 
skuldajöfnuði sem fram fór 27. júní í 2011 en hann var eins og rakið hefur 
verið í samræmi við þau lagafyrirmæli sem um hann giltu. Með vísan til 
þess sem rakið hefur verið verður stefndi sýknaður af endurgreiðslukröfu 
stefnanda.
Rétt þykir með hliðsjón af atvikum málsins að málskostnaður milli aðila 
falli niður.
Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Stoða hf., í 
máli þes
Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur