Úrskurður yfirskattanefndar,. Söluréttarsamningur vegna hlutabréfa. Hækkun við innlausn talin launagreiðslur.
Meðfylgjandi er reifun á nýlegum yfirskattanefndarúrskurði sem varðar starfskjör . Málið er nr 117 frá 27.05. sl.
Kærandi, sem var forstjóri X hf., keypti hlutabréf í félaginu á genginu 3,15 á árinu 2003. Fóru kaup hlutabréfanna fram á grundvelli söluréttarsamnings milli kæranda og X hf. sem veitti kæranda rétt til að selja félaginu hin keyptu hlutabréf á sama gengi, þ.e. genginu 3,15, að tveimur árum liðnum. Voru kaup hlutabréfanna fjármögnuð með eingreiðsluláni frá Z-banka hf. og hlutabréfin sett bankanum að handveði auk þess sem kærandi framseldi bankanum hinn umsamda sölurétt að hlutabréfunum til tryggingar láninu. Á árinu 2004 varð að samkomulagi með kæranda og X hf. að fallið yrði frá kvöð í söluréttarsamningi aðila um tveggja ára eignarhaldstíma hinna keyptu hlutabréfa og í kjölfarið seldi kærandi X hf. hlutabréfin á genginu 6,55 og greiddi upp lánið frá Z-banka hf. Tilgreindi kærandi hagnað af sölu hlutabréfanna að fjárhæð 47.600.000 kr. sem fjármagnstekjur í skattskilum sínum árið 2005. Í úrskurði yfirskattanefndar var fallist á með ríkisskattstjóra að kæranda hefði borið að færa sér umrædda fjárhæð til tekna sem launatekjur í skattframtalinu þar sem líta yrði svo á að samkomulag kæranda og X hf. um niðurfellingu söluréttar á árinu 2004 hefði í skattalegu tilliti falið í sér nýtingu kæranda á kauprétti að hlutabréfunum í X hf. sem kærandi hefði í raun öðlast á árinu 2003 vegna starfa í þágu félagsins, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 9. gr. laga nr. 90/2003. Kom fram í úrskurðinum að þótt kærandi hefði að nafninu til verið kaupandi hlutabréfanna í X hf. á árinu 2003 og skuldari láns frá Z-banka hf. sem tekið var í tengslum við kaupin hefði fjárhagsleg ábyrgð og áhætta hans af viðskiptunum í raun verið hverfandi. Í því sambandi var m.a. vísað til þess að framsal kæranda á sölurétti að hlutabréfunum til Z-banka hf. til tryggingar endurgreiðslu lánsins, auk alls fjármagnskostnaðar af því, hefði í raun falið í sér óskoraða ábyrgð vinnuveitanda kæranda, X hf., á endurgreiðslu lánsins, en fram kom í söluréttarsamningi kæranda og X hf. að við nýtingu söluréttar samkvæmt samningnum skyldi verð á hlut breytast þannig að sölugengi hækkaði um sem svaraði til fjármagnskostnaðar samkvæmt lánssamningi sem X hf. hefði útvegað kæranda hjá Z-banka hf. Þá hefðu arðgreiðslur af hlutabréfunum í reynd ekki runnið til kæranda heldur til greiðslu afborgana og vaxta af láni Z-banka hf. sem X hf. hefði í raun borið ábyrgð á vegna söluréttar sem félagið hefði veitt kæranda og framseldur var Z-banka hf. í tengslum við fjármögnun viðskiptanna. Þá hefði umræddur söluréttur falið í sér að áhætta af lækkun hlutabréfaverðs í X hf. í viðskiptunum hefði alfarið hvílt á félaginu sjálfu. Var kröfum kæranda í málinu hafnað að öðru leyti en því að fallist var á varakröfu hans um niðurfellingu tilfærðs arðs af hlutabréfunum í skattframtali árið 2005 auk þess sem 25% álag var fellt niður.