Útgreiðslur úr styrktarsjóði
Með tölvupósti, dags. 2. mars 2015, var fyrir hönd Félags […..]óskað eftir svörum við nokkrum spurningum varðandi útgreiðslu úr styrktarsjóði félagsins.
Fram kom að til stæði að breyta úthlutunarreglum styrktarsjóðsins á þann hátt að hver og einn félagsmaður í sjóðnum fái greidda út þá fjárhæð sem vinnuveitandi hefur greitt inn fyrir viðkomandi að frádregnum kostnaði sem sjóðurinn leggi út vegna fæðingarstyrks og sjúkradagpeninga til félagsmanna. Af þessu tilefni eru lagðar fram nokkrar spurningar:
1. Er sjóðnum heimilt að greiða hverjum og einum út þessa uppæð í formi líkamsræktarstyrks og hann myndi bera ábyrgð á því að framvísa kvittun á móti líkt og gert er við starfsmenntunar og vísindasjóðsstyrki?
2. Ef þessi leið sem nefnd er að ofna er heimil, hvernig væri farið með það á skattaframtali til þess að draga frá kostnað á móti líkt og gert er hjá Vísindasjóði félagsins?
3. Ef þessi leið sem nefnd er að ofan er ekki heimil og vandamálið er að ekki er hægt að draga frá kostnað á móti á skattframtali eins og hægt er við starfsmenntunarstyrki, er hægt að fara fram á að slíkt verði sett inn á skattaframtal og hvernig myndi það ferli vera.
4. Ef þessi leið sem nefnd er að ofan er ekki heimil, með vísan í hvaða lög og reglur er það.
5. Getur ríkisskattstjóri komið með ábendingu til Styrkarsjóðs um hvernig er hægt að ráðstafa styrknum þannig að öllum reglum sé fullnægt?
Þessu er til að svara að skattskylda tekna er mjög víðtæk og skiptir þá ekki máli hvernig er greitt eða með hverju, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Laun og starfstengdar greiðslur eru skattskyldar samkvæmt 1. tölul. ákvæðisins og styrkir samkvæmt 2. tölul. ákvæðisins. Styrkir af hvaða tagi sem er teljast til skattskyldra tekna mótttakenda þeirra, sbr. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Eftir atvikum getur verið heimilt að færa til frádráttar á móti styrkjum beinan kostnað, sbr. 2. mgr. B-liðar 30. gr. laganna. Það leiðir af tilvísun síðast greinds lagaákvæðis til 1. mgr. 31. gr. laganna að aldrei er heimilt að færa persónulegan kostnað til frádráttar, eins og t.d. kostnað vegna kaupa á gleraugum á móti styrk sem ætlaður er til kaupanna. Styrkir eru í flestum tilvikum staðgreiðsluskyldir og ber greiðanda því að draga af þeim staðgreiðslu í samræmi við lög nr.45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Undanþágur frá staðgreiðslu eru taldar upp með tæmandi hætti í 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Að loknu tekjuári ber greiðanda styrkjanna að gera grein fyrir þeim með launamiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra í síðasta lagi 10. febrúar ár hvert.
Rétt er að taka fram að í skattmati er ekki fjallað um beina styrki heldur um mat á hlunnindum til tekna og um þær greiðslur á kostnaði sem ekki skal telja til tekna. Að því marki sem um getur í skattmati hverju sinni teljast greiðslur á kostnaði t.d. vegna heilsuræktar því ekki til beinna styrkja í skilningi fyrrgreinds 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 heldur falla þær í raun að þessu leyti undir starfsmannakostnað sem ekki skal telja til tekna hjá starfsmönnum, sbr. einnig ákvæði um kostnað vegna árshátíðar og annan slíkan starfsmannatengdan kostnað. Fari greiðslur á hinn bóginn umfram þær fjárhæðir sem ákvarðaðar eru í skattmati ber að telja það sem umfram er til skattskyldra tekna þess sem þiggur. Tekið skal fram að um tilteknar greiðslur gildir það sama þótt þær séu greiddar af stéttarfélögum og á það m.a. við um greiðslur vegna heilsuræktar.
Félagi […..] er skattalega heimilt að greiða út úr sjóðum sínum til félagsmanna en almenna reglan er sú, sbr. það sem rakið er að framan, að um skattskyldar tekjur viðtakenda er að ræða sem jafnframt ber að draga af staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 40/1978.
Sé útgreiðsla í raun vegna framlagðra reikninga um kostnað vegna heilsuræktar, eins og fram kemur í spurningu nr. eitt í fyrirspurninni, er heimilt að halda þeirri greiðslu utan skattskyldu og þar með staðgreiðslu að hámarki 55.000 kr. á tekjuárinu 2015, enda séu öll skilyrði uppfyllt að öðru leyti, sbr. kafla 2.9 í skattmati sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. desember 2014, auglýsing nr. 1173/2014. Þó er rétt að taka fram að greiðslur þessar skal færa á launamiða og skila í febrúar.
Að öðru leyti vísast til almennra reglna sem raktar hafa verið að framan til svars spurningum sem fram eru settar í fyrirspurn.
Ríkisskattstjóri