Search
Close this search box.

Svar rsk við spurningum um skattmat á einkennisfötum og öðrum fatnaði.

Bréf rsk.:
Dagsetning Tilvísun 
28.11.2014 04/14



Fatahlunnindi – skattaleg meðferð 

Vísað er til bréfs yðar sem dagsett er 15. september 2014 þar sem óskað er eftir leiðbeiningu um skattalega meðferð vegna vinnufatnaðar sem vinnuveitandi útvegar starfsmönnum að kostnaðarlausu, þ.e. hvort um sé að ræða skattskyld hlunnindi. Vísað er til þess sem kemur fram í skattmati vegna ársins 2013 að ekki skuli reikna launþega til tekna nauðsynlegan öryggis- eða hlífðarfatnað sem launagreiðandi afhendir honum til afnota við störf hans, þ.m.t. öryggis- og hlífðarfatnað sem launagreiðendum sé skylt lögum samkvæmt, stjórnvaldsfyrirmælum og kjarasamningum að afhenda launþegum án endurgjalds. Þá er farið yfir ákveðna kafla í viðeigandi kjarasamningi þar sem fram kemur hvaða vinnu, hlífðar- og einkennisföt skylt er að afhenda starfsmönnum þeim að kostnaðarlausu.

Fram kemur að í framkvæmd hafi að meginstefnu til verið horfið frá því að merkja fatnaðinn vinnustaðnum sérstaklega þar sem það geti verið dýrt og svo sé einnig mismunandi hvort það eigi við, s.s. þegar um er að ræða skyrta og buxur í stað íþróttagalla.

Í niðurlagi bréfsins er tekið fram að til hafi staðið að senda erindið til ríkisskattstjóra í upphafi árs 2014 vegna tekjuársins 2013 en því miður hafi það farist fyrir. Væntanlega sé kærufrestur úti varðandi það ár en ljóst að sama viðfangsefni blasi við vegna tekjuársins 2014 og því brýnt að fá úr þessu skorið.

Í tilefni af fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri eftirfarandi fram:

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu fellur endurgjaldslaus fatnaður sem launamanni er látinn í té, svonefnd fatahlunnindi. 

Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 90/2003, skal ríkisskattstjóri að fenginni staðfestingu ráðherra gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum.  Ríkisskattstjóri gaf út reglur um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2014 hinn 10. janúar 2014 og voru þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda sem auglýsing nr. 14/2014.

Í framangreindum reglum um mat á hlunnindum segir í kafla eitt að telja beri til tekna hvers konar gæði sem mönnum hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir þá ekki máli hvaðan þau stafa eða í hvaða formi þau eru. Á það t.d. við um fatnað. Kemur nánar fram að meta skuli þau gæði og hlunnindi, sem ekki hafi verið í krónum talin, til peningaverðs og telja þau til tekna á því verði. Skulu þau metin til tekna á gangverði eða markaðsverði á hverjum tíma nema við þau eigi sérstakt tekjumat samkvæmt skattmatinu. 

Eins og segir í fyrirspurn gjaldanda kemur fram í skattmati ríkisskattstjóra að eigi skuli reikna launþega til tekna nauðsynlegan öryggis- eða hlífðarfatnað sem launagreiðandi afhendir honum til afnota við störf hans, þ.m.t. öryggis- og hlífðarfatnað sem launagreiðendum er skylt skv. lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og kjarasamningum að afhenda launþegum án endurgjalds. Jafnframt kemur fram í skattmati ríkisskattstjóra að ekki skuli telja til tekna einkennisfatnað sem starfsmanni er látinn í té og honum er ætlað að nota við störf sín, eða annan þann fatnað sem auðkenndur er eða merktur launagreiðanda, og einkum er nýttur vegna starfa í þágu hans. 

Samkvæmt framansögðu má greina þann fatnað sem ekki ber að telja til tekna í þrennt: 
· Einkennisfatnað sem starfsmanni er ætlað að nota við störf sín. 
· Fatnað sem auðkenndur er eða merktur launagreiðanda og einkum er nýttur vegna starfa í þágu launagreiðanda. 
· Nauðsynlegan öryggis- og hlífðarfatnað sem launagreiðandi afhendir starfsmanni honum til afnota við störf hans, þ.m.t. sá öryggis- og hlífðarfatnað sem launagreiðendum er skylt skv. lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og kjarasamningum að afhenda launþegum án endurgjalds.
 
 
Meta  verður hverju sinni hvort aðstæður eru með þeim hætti að framangreindar undanþágur eigi við. Þannig er ekki unnt að veita einhlítt svar sem gildir í öllum tilvikum þegar vinnuveitandi afhendir launþega fatnað án endurgjalds. Hafa verður í huga að meginreglan er að telja beri hlunnindi til tekna og að undanþágurnar eigi eingöngu við þegar skilyrði þeirra eru uppfyllt.

Sé litið til þess hvaða fatnað ber ekki að telja til tekna, sbr. framanritað, verður ráðið að almennt megi gera ráð fyrir að um sé að ræða fatnað sem ekki sé fallinn til afnota utan vinnutíma og almennt ekki ætlaður til slíkra nota.

Þótt af fyrirspurninni verði helst ráðið að hún varði fyrst og fremst nauðsynlegan öryggis- og hlífðarfatnað sem launagreiðendum er skylt að afhenda launþegum án endurgjalds, s.s. skv. kjarasamningum, ber að hafa í huga að undanþága frá því að telja fatahlunnindi til tekna er ekki bundin við slíkan fatnað, sbr. framanritað. Þannig á undanþágan við þegar um einkennisfatnað er að ræða sem og fatnað sem auðkenndur er eða merktur launagreiðanda og er það óháð því hvort launagreiðendum sé skylt að afhenda hann launþegum án endurgjalds skv. lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða kjarasamningum, enda séu skilyrði fyrir undanþágunni að öðru leyti uppfyllt. Sama á reyndar við um nauðsynlegan öryggis- og hlífðarfatnað, þ.e. undanþágan er ekki háð því skilyrði að launagreiðendum sé skylt samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða kjarasamningum að afhenda launþegum umræddan fatnað án endurgjalds.

Í fyrirspurninni er grein 8.2.4 í kjarasamningi Akraneskaupstaðar við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar rakin. Þar segir:

8.2.4 
Aðilar eru sammála um að eftirfarandi atriði skulu uppfyllt þegar hverjum starfsmanni er lagður til fatnaður: 
a.   Fatnaður sem lagður er til af sveitarfélaginu er eign þess.
b.   Vinnufatnaður skal skilmerkilega merktur.
c.   Þar sem því verður við komið, skal vinnufatnaður skilinn eftir á vinnustað að loknum vinnudegi.
d.   Er starfsmaður lætur af starfi, skal hann skila síðasta vinnu-, hlífðar og einkennisfatnaði er hann fékk.
e.   Fatnaður skal lagður til eftir þörfum og komi upp ágreiningur skal fjalla um hann á þeim vettvangi sem skilgreindur er í grein 11.2. Sé um önnur störf að ræða en um getur í gr. 8.2.5 og 8.2.6 skal fjallað um þau á framangreindum vettvangi á grundvelli 8. kafla kjarasamningsins.
 
 
Að mati ríkisskattstjóra verður ekki annað séð en að sú meginregla sem lesin verður úr skattmati ríkisskattstjóra, að undanþágan frá því að telja fatahlunnindi til tekna sé afmörkuð við fatnað sem launþegi hafi almennt engin persónuleg afnot af, endurspeglist í grein 8.2.4 í kjarasamningi Akraneskaupstaðar við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Eru það þau sjónarmið sem almennt ber að leggja til grundvallar mati á því hvort einhver af undanþágunum eigi við í einstökum tilvikum.

Ef fatnaður sem lagður er til af sveitarfélaginu er eign sveitarfélagsins og skilinn eftir á vinnustað að loknum vinnudegi ber ekki að telja fatahlunnindin til tekna. Gera verður ráð fyrir að slíkt eigi almennt við um hlífðarfatnað, s.s. sloppa og samfestinga. 

Líkt og að framan er rakið ber ekki að telja til tekna fatnað sem auðkenndur er eða merktur vinnuveitanda og einkum er nýttur vegna starfa í þágu vinnuveitanda. Sama á við um einkennisfatnað sem starfsmanni er ætlað að nota við störf sín.

Hvað öryggis- eða hlífðarfatnað varðar er horft til þess hvort um er að ræða öryggis- eða hlífðarfatnað sem nauðsynlegur er í viðkomandi starfsgrein. Það á m.a. við um öryggisskó, hjálma og sérstakan fatnað sem veitir almennt meiri vernd en hefðbundinn fatnaður. Þá fellur hér undir ýmiss hlífðarfatnaður sem launagreiðandi afhendir starfsfólki í mötuneytum, í heilbrigðisþjónustu,  á dvalarheimilum og öðrum sambærilegum störfum. Sama á við um hlífðarfatnað sem starfsfólk áhaldahúsa og vinnuflokka klæðast í störfum sínum.

Í fyrirspurnarbréfi er grein 8.2.5 í kjarasamningi Akraneskaupstaðar við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar rakin. Þar eru kulda- og regngallar nefndir í nokkrum stafliðum. Við afmörkun á því hvort ekki beri að telja þau fatahlunnindi til tekna ber að leggja mat á það hvort einhver af tilgreindum undanþágum í skattmatinu eigi við, þ.e. hvort um er að ræða sérstakan einkennisfatnað eða hvort fatnaðurinn er auðkenndur eða merktur vinnuveitanda. Ef hvorug framangreindra undanþága á við og um er að ræða hefðbundnar yfirhafnir sem eru vel fallnar til persónulegra nota launþega, verður að leggja mat á það hvort um sé að ræða nauðsynlegan hlífðarfatnað í skilningi skattmatsreglna ríkisskattstjóra. Við það mat er m.a. horft til þess hvort starfsaðstæður leiði til aukinna slita á fatnaði í samanburði við almenna notkun og umfram það sem eðlilegt megi teljast. Hafa ber þó í huga að í öllum tilvikum á það við að ef vinnuveitandi á umræddan fatnað og hann er skilinn eftir á vinnustað í lok vinnudags, ber ekki að telja fatnaðinn til tekna launþega.

Buxur, skyrtur, íþróttagallar og bolir teljast ekki til öryggis- eða hlífðarfatnaðar í þessu sambandi. Þann fatnað ber þannig almennt að telja launamanni til tekna að undanskyldum þeim fatnaði sem telst til einkennisfatnaðar eða sem er merktur launagreiðanda. Þá ber ekki að telja hann til tekna ef hann er eign vinnuveitanda og skilinn eftir á vinnustað að loknum vinnudegi.

Að gefnu tilefni telur ríkisskattstjóri rétt að benda á að skv. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er ríkisskattstjóra heimilt að taka til greina beiðni skattaðila um breytingu á ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu, þó lengst sex tekjuár aftur í tímann, talið frá því ári þegar beiðni kemur fram, enda liggi verulegir hagsmunir að baki slíkri beiðni. Beiðni skal byggjast á nýjum gögnum og upplýsingum. Er þannig unnt að koma að beiðni um breytingu á skattframtali þrátt fyrir að kærufrestur vegna álagningar opinberra gjalda sé liðinn.
 Ríkisskattstjóri


Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur