Search
Close this search box.

Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegur EEs-nefndarinnar

Þskj. 146  —  133. mál.

Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 80/2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 80/2008, frá 4. júlí 2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1569/2007 um að koma á fót aðferð til að ákvarða jafngildi reikningsskilastaðla sem útgefendur verðbréfa í þriðja landi beita samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB og 2004/109/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1.    Inngangur.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 80/2008, frá 4. júlí 2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1569/2007 um að koma á fót aðferð til að ákvarða jafngildi reikningsskilastaðla sem útgefendur verðbréfa í þriðja landi beita samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB og 2004/109/EB.
    Reglugerð nr. 1569/2007 tilgreinir skilmála sem góðar reikningsskilavenjur þriðju ríkja þurfa að uppfylla til að vera vegnar að jöfnu við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem Evrópusambandið samþykkir. Ljóst er að innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2.    Um stjórnskipulegan fyrirvara.

    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.    Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1569/2007 um að koma á fót aðferð til að ákvarða jafngildi reikningsskilastaðla sem útgefendur verðbréfa í þriðja landi beita samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB og 2004/109/EB.

    Reglugerð nr. 1569/2007 leggur fram skilmála sem reikningsskilareglur þriðju ríkja þurfa að uppfylla til að vera jafngildar alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem Evrópusambandið samþykkir. Stefna Evrópusambandsins er að komið verði á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum fyrir félög sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði í löndum þess. Þar til það gerist er stefnan að nema brott kostnaðarsamar afstemmingar milli reikningsskilareglna Evrópusambandsins og helstu viðskiptalanda þess. Reikningsskilareglur þriðju ríkjanna er hægt að leggja að jöfnu við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem Evrópusambandið samþykkir ef ársreikningur félags er saminn eftir viðurkenndum reikningsskilareglum þriðja ríkisins, þannig að það gerir fjárfestum kleift að komast að sambærilegri fjárhagslegri stöðu þess sem semur ársreikninginn.
    Reglugerðin hefur einnig að geyma ákvæði um eftirlit ársreikningaskrár með félögum utan ríkja ESB sem skrá verðbréf sín á skipulegum verðbréfamarkaði í ríkjum sambandsins.

4.    Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.

    Frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, og ýmsum öðrum lögum varðandi endurskoðendur og skoðunarmenn, sem var upphaflega lagt fram á 136. löggjafarþingi 2008–2009 (245. mál, þskj. 362), var meðal annars ætlað að skapa nauðsynlega lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar nr. 1569/2007. Frumvarpið var þó ekki afgreitt úr efnahags- og skattanefnd fyrir þinglok á því löggjafarþingi. Frumvarpið var lagt fram að nýju lítillega breytt á 138. löggjafarþingi 2009–2010 en hlaut þá sömu örlög (218. mál, þskj. 242). Fyrirhugað er að leggja frumvarpið enn á ný fram á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Í fyrrgreindu frumvarpi er meðal annars lagt til að komið verði til framkvæmda hér á landi ákveðnum þáttum reglugerðar nr. 1569/2007 um eftirlit ársreikningaskrár með félögum utan EES-ríkjanna sem skrá verðbréf sín á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, að lögin kveði á um að þegar um sé að ræða félag sem sé með skráða skrifstofu utan Evrópska efnahagssvæðisins en gefur út verðbréf sín sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi skuli ársreikningaskrá hafa eftirlit með því hvort ársreikningur sem saminn er samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum heimaríkis sé hliðstæður ákvæðum laga nr. 3/2006.
    Um efnahagslegar afleiðingar gerðarinnar er vísað til kostnaðarmats fjármálaráðuneytisins í fylgiskjali með frumvarpinu sem lagt var fram á 138. löggjafarþingi þar sem fram kemur að verði frumvarpið óbreytt að lögum sé ekki gert ráð fyrir því að það hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.
    Um stjórnsýslulegar afleiðingar gerðarinnar verður ekki séð að umfang þess eftirlits sem gert er ráð fyrir af hálfu ársreikningaskrár verði slíkt að það kalli á sérstakar ráðstafanir hvað varðar skipulag eða starf stofnunarinnar. Þá vísast til 3. mgr. 61. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, þar sem segir að ársreikningaskrá fari með mat á því hvort kröfur samkvæmt ákvæðum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins séu hliðstæðar ákvæðum laga um ársreikninga sem byggjast á tilskipun 2004/109/EB.


Fylgiskjal I.

ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 80/2008
frá 4. júlí 2008
um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn

SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 66/2008 frá 6. júní 2008 (Sjá neðanmálsgrein 1 1 ).

2)        Fella ber inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1569/2007 frá 21. desember 2007 um að koma á fót aðferð til að ákvarða jafngildi reikningsskilastaðla sem útgefendur verðbréfa í þriðja landi beita samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB og 2004/109/EB (Sjá neðanmálsgrein 2 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 29ga (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/14/EB) í IX. viðauka við samninginn:

„29h.         32007 R 1569: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1569/2007 frá 21. desember 2007 um að koma á fót aðferð til að ákvarða jafngildi reikningsskilastaðla sem útgefendur verðbréfa í þriðja landi beita samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB og 2004/109/EB (Stjtíð. ESB L 340, 22.12.2007, bls. 66).“

2. gr.

Íslenskur og norskur texti reglugerðar (EB) nr. 1569/2007, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 5. júlí 2008 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni (Sjá neðanmálsgrein 3 * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

SAMEIGINLEG YFIRLÝSING SAMNINGSAÐILA

vegna ákvörðunar nr. 80/2008 sem felur í sér ákvæði um að fella inn í samninginn reglugerð (EB) nr. 1569/2007

„Í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1569/2007 frá 21. desember 2007 um að koma á fót aðferð til að ákvarða jafngildi reikningsskilastaðla sem útgefendur verðbréfa í þriðja landi beita samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB og 2004/ 109/EB eru nokkrar greinar sem lúta að jafngildi krafna sem gilda gagnvart ríkjum utan Evrópubandalaganna. Innfelling þessarar reglugerðar er með fyrirvara um gildissvið EES- samningsins.“

Fylgiskjal II.

REGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (EB) nr. 1569/2007
frá 21. desember 2007
um að koma á fót aðferð til að ákvarða jafngildi reikningsskilastaðla sem útgefendur verðbréfa í þriðja landi beita samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB og 2004/109/EB

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,
með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB (Sjá neðanmálsgrein 4 1 ), einkum 1. mgr. 7. gr.,
með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB (Sjá neðanmálsgrein 5 2 ), einkum i-lið 4. mgr. 23. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         Í 4. mgr. 23. gr. tilskipunar 2004/109/EB er þess krafist að framkvæmdastjórnin komi á fót kerfi til að ákvarða jafngildi upplýsinga sem krafist er samkvæmt þessari tilskipun, þ.m.t. reikningsskil og samsvarandi kröfur samkvæmt lögum og stjórnsýslufyrirmælum þriðju landa. Í þessari grein er þess einnig krafist að framkvæmdastjórnin taki ákvarðanir í tengslum við jafngildi reikningsskilastaðla, sem útgefendur í þriðja landi nota, og framkvæmdastjórninni gert kleift að heimila notkun reikningsskilastaðla þriðja lands í hæfilega langan aðlögunartíma. Þegar höfð er í huga náin samtenging upplýsinganna, sem krafist er samkvæmt tilskipun 2004/109/EB og upplýsinganna, sem krafist er samkvæmt tilskipun 2003/71/EB, er rétt að sömu viðmiðanir fyrir ákvörðun jafngildis gildi fyrir báðar þessar tilskipanir.
2)         Þegar höfð eru í huga markmið tilskipunar 2003/71/EB um að tryggja að fjárfestar geti á upplýstan hátt metið eignir og skuldir, fjárhagsstöðu, hagnað og tap og rekstrarhorfur útgefanda og markmið tilskipunar 2004/109/EB um að gera fjárfestum kleift að meta á upplýstan hátt fjárhagsstöðu útgefenda verðbréfa, sem eru skráð á skipulegan markað, er rétt að skilgreina jafngildi með vísan til getu fjárfesta til að leggja sambærilegt mat á fjárhagsstöðu og rekstrarhorfur útgefanda, án tillits til þess hvort reikningsskilin eru gerð í samræmi við reikningsskilastaðla þriðja lands eða í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (hér á eftir kallaðir IFRS-staðlar).
3)         Í því skyni að tryggja að jafngildi reikningsskilastaðla þriðja lands sé ákvarðað í öllum tilvikum sem skipta máli fyrir markaði í Bandalaginu skal framkvæmdastjórnin meta jafngildi reikningsskilastaðla þriðja lands, annaðhvort að beiðni lögbærs yfirvalds í aðildarríki eða yfirvalds, sem er ábyrgt fyrir reikningsskilastöðlum, eða markaðseftirliti í þriðja landi, eða að eigin frumkvæði. Framkvæmdastjórnin hefur fyrst samráð við samstarfsnefnd evrópskra verðbréfaeftirlitsaðila (CESR) að því er varðar mat á jafngildi viðkomandi reikningsskilastaðla. Auk þess mun framkvæmdastjórnin fylgjast með framvindu aðgerða viðkomandi yfirvalda í þriðju löndum til að fella niður allar kröfur til útgefenda í Bandalaginu, sem hafa aðgang að fjármálamörkuðum í þriðja landi, um að stemma af reikningsskil sem samin eru með því að beita IFRS-stöðlum sem voru innleiddir samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla (Sjá neðanmálsgrein 6 3 ). Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar verður að vera á þann veg að útgefendum í Bandalaginu sé heimilt að nota IFRS-staðla, sem voru innleiddir samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/2002, í hlutaðeigandi þriðja landi.
4)         Forseti leiðtogaráðsins, forseti framkvæmdastjórnarinnar og forseti Bandaríkjanna voru einhuga um það í apríl 2007 að stuðla að og tryggja að þær aðstæður verði uppi, í síðasta lagi árið 2009, að góðar reikningsskilavenjur í Bandaríkjunum (GAAP) og IFRS-staðlar verði viðurkennd í báðum lögsögum án þess að þörf sé fyrir afstemmingu. Framkvæmdastjórnin og verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna (SEC) hafa áfram skipst á skoðunum með það fyrir augum að IFRS-staðlar, sem voru innleiddir samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/2002, verði viðurkenndir í Bandaríkjunum, en það myndi leysa útgefendur, sem nota IFRS-staðla, undan kostnaðarsömum afstemmingarkröfum. Gera ber ráðstafanir fyrir árslok 2008 til að koma á sambærilegu fyrirkomulagi við önnur lönd þar sem fyrirtæki í Evrópusambandinu skrá verðbréf sín á verðbréfamörkuðum. Reikningsskilaráð Japans (ASBJ) vinnur að framkvæmd sameiginlegrar vinnuáætlunar sinnar og Alþjóðareikningsskilaráðsins (IASB) til að samræma góðar reikningsskilavenjur í Japan og IFRS-staðlana. Reikningsskilaráð Kanada (AcSB) birti framkvæmdaáætlun um að taka IFRS-staðla upp í góðar reikningsskilavenjur í Kanada frá og með 1. janúar 2011.
5)         Í því skyni að efla markmið reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 og hvetja til notkunar IFRS- staðla á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og til að draga eins og framast er kostur úr röskun á mörkuðum í Bandalaginu er rétt að hafa hliðsjón af öllum áætlunum um samleitni í átt til IFRS-staðla eða skuldbindingu af hálfu viðeigandi yfirvalds í þriðja landi um að innleiða IFRS-staðla. Því er nauðsynlegt að tilgreina frekar við hvaða aðstæður samleitniáætlanir geti talist fullnægjandi grundvöllur fyrir því að heimila útgefendum í þriðja landi að beita innlendum reikningsskilastöðlum sínum á aðlögunartíma. Framkvæmdastjórnin hefur fyrst samráð við samstarfsnefnd evrópskra verðbréfaeftirlitsaðila um samleitniáætlunina eða um framvinduna við að innleiða IFRS-staðla, eftir atvikum.
6)         Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, eru í samræmi við álit evrópsku verðbréfanefndarinnar.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Viðfangsefni

Í þessari reglugerð er mælt fyrir um það við hvaða aðstæður unnt er að telja að góðar reikningsskilavenjur í þriðja landi séu jafngildar alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (hér á eftir nefndir IFRS- staðlar) og innleidd aðferð til að ákvarða slíkt jafngildi.

2. gr.
Jafngildi

Góðar reikningsskilavenjur í þriðja landi geta talist jafngildar IFRS-stöðlum, sem voru innleiddir samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/2002, ef reikningsskilin, sem eru gerð í samræmi við góðar reikningsskilavenjur í hlutaðeigandi þriðja landi, gera fjárfestum kleift að leggja sambærilegt mat á eignir og skuldir, fjárhagsstöðu, hagnað og tap og rekstrarhorfur útgefandans og reikningsskil sem eru gerð í samræmi við IFRS-staðla, þannig að fjárfestar séu líklegir til að taka sömu ákvarðanir um kaup, varðveislu eða ráðstöfun verðbréfa útgefanda.

3. gr.
Jafngildisaðferð

Framkvæmdastjórnin getur átt frumkvæði að því að taka ákvörðunina um jafngildi góðra reikningsskilavenja í þriðja landi að beiðni lögbærs yfirvalds aðildarríkis eða að beiðni yfirvalds sem er ábyrgt fyrir reikningsskilastöðlum eða markaðseftirliti í þriðja landi.
Þegar framkvæmdastjórnin ákveður að ákvarða jafngildi, hvort heldur það er vegna beiðni eða að eigin frumkvæði, skal hún gera þá ákvörðun opinbera.

4. gr.
Skilyrði fyrir samþykki reikningsskilastaðla þriðja lands í takmarkaðan tíma

1.    Heimila má útgefendum í þriðja landi að nota reikningsskil, sem eru gerð í samræmi við reikningsskilastaðla þriðja lands í því skyni að uppfylla skyldur sínar samkvæmt tilskipun 2004/109/EB og, með undanþágu frá 5. mgr. 35. gr. reglugerðar (EB) nr. 809/2004, að leggja fram eldri fjárhagsupplýsingar samkvæmt þeirri reglugerð fyrir tímabil sem hefst einhvern tíma eftir 31. desember 2008 og lýkur eigi síðar en 31. desember 2011, í eftirfarandi tilvikum:
1)    yfirvald það í þriðja landi sem er ábyrgt fyrir innlendum reikningsskilastöðlum hefur skuldbundið sig opinberlega fyrir 30. júní 2008 til að gera þá staðla samleitna alþjóðlegum reikningsskilastöðlum fyrir 31. desember 2011 og hvort tveggja eftirfarandi skilyrða eru uppfyllt:
    a)    yfirvald það í þriðja landi sem er ábyrgt fyrir hlutaðeigandi innlendum reikningsskilastöðlum hefur gert heildstæða samleitniáætlun fyrir 31. desember 2008 sem unnt er að ljúka fyrir 31. desember 2011,
    b)    samleitniáætlunin er framkvæmd tafarlaust og á skilvirkan hátt og nauðsynlegum fjármunum til að ljúka henni er úthlutað til framkvæmdar hennar,
2)    yfirvald það í þriðja landi sem er ábyrgt fyrir hlutaðeigandi innlendum reikningsskilastöðlum hefur skuldbundið sig opinberlega fyrir 30. júní 2008 til að innleiða alþjóðlega reikningsskilastaðla fyrir 31. desember 2011 og gerðar hafa verið árangursríkar ráðstafanir í þriðja landinu til að tryggja tímanleg og algjör umskipti yfir í alþjóðlega reikningsskilastaðla eigi síðar en þann dag eða það hefur gert samkomulag við ESB um gagnkvæma viðurkenningu fyrir 31. desember 2008.
2.    Allar ákvarðanir skv. 1. mgr. um að heimila áframhaldandi viðtöku reikningsskila, sem eru gerð í samræmi við reikningsskilastaðla þriðja lands, skulu teknar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 24. gr. tilskipunar 2003/71/EB og 2. mgr. 27. gr. tilskipunar 2004/109/EB.
3.    Ef framkvæmdastjórnin heimilar áframhaldandi viðtöku reikningsskila, sem eru gerð í samræmi við reikningsskilastaðla þriðja lands í samræmi við 1. mgr., skal hún endurskoða reglulega hvort skilyrðin, sem eru tilgreind í a- eða b-lið (eftir atvikum), séu áfram uppfyllt og til samræmis við það skal hún senda skýrslu til evrópsku verðbréfanefndarinnar og Evrópuþingsins.
4.    Ef skilyrðin í a- eða b-lið 1. mgr. eru ekki lengur uppfyllt skal framkvæmdastjórnin taka ákvörðun í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 24. gr. tilskipunar 2003/71/EB og 2. mgr. 27. gr. tilskipunar 2004/109/EB um breytingu á ákvörðun sinni skv. 1. mgr., að því er varðar þessa reikningsskilastaðla.
5.    Þegar framkvæmdastjórnin fer að þessari grein skal hún fyrst hafa samráð við samstarfsnefnd evrópskra verðbréfaeftirlitsaðila um samleitniáætlunina eða um framvinduna við innleiðingu alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna, eftir atvikum.

5. gr.

Reglugerð þessi öðlast gildi á þriðja degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 21. desember 2007.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Charlie McCREEVY
framkvæmdastjóri.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 257, 25.9.2008, bls. 29, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 58, 25.9.2008, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 340, 22.12.2007, bls. 66.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 64.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. ESB L 390, 31.12.2004, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB L 243, 11.9.2002, bls. 1.

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur