“Lækkun tryggingagjalds um 0,1%
Fréttatilkynning nr. 17/2012
Tryggingagjaldshlutfall lækkar um 0,1 prósentustig milli ára og verður 7,69% á árinu 2013.
Tryggingagjald er sérstakt gjald sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna sinna á tekjuári og eftir atvikum af eigin reiknuðu endurgjaldi. Tryggingagjald er innheimt í staðgreiðslu og skiptist í almennt tryggingagjald og atvinnutryggingagjald.
Tryggingagjald telst til svokallaðra launatengdra gjalda, en það eru þau gjöld sem launagreiðendur, þ.m.t. sjálfstætt starfandi menn, greiða vegna launakostnaðar við atvinnurekstur. Önnur launatengd gjöld í staðgreiðslu eru markaðsgjald og gjald í Ábyrgðarsjóð launa, en þau eru innheimt í staðgreiðslu samhliða innheimtu tryggingagjalds.
Á staðgreiðsluárinu 2013 er tryggingagjaldshlutfallið að meðtöldu markaðsgjaldi og gjaldi í Ábyrgðasjóð launa 7,69% og lækkar því um 0,1 prósentustig milli ára. Skipting þess er sem hér segir:
Almennt tryggingagjald 5,29%
Atvinnutryggingagjald 2,05%
Gjald í Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota 0,30%
Markaðsgjald 0,05%
Samtals til staðgreiðslu 7,69%
Sérstök trygging (0,65%) bætist við vegna launa sjómanna á fiskiskipum.
Tryggingagjaldi skal skila mánaðarlega til innheimtumanna ríkissjóðs.”