Úrskurður nr. 69/2017
Rekstrarkostnaður
Álag
Kærandi, sem var samlagsfélag um fasteignasölu, gjaldfærði í skattskilum sínum árin 2012, 2013 og 2014 leigugreiðslur vegna leigu á sumarbústað. Yfirskattanefnd taldi skýringar kæranda á notkun hússins í þágu rekstrar félagsins ótrúverðugar með tilliti til eðlis eignarinnar og staðsetningar á orlofsdvalarstað. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að kostnaður við leigu sumarbústaðarins væri frádráttarbær rekstrarkostnaður. Var kröfum kæranda um gjaldfærslu hafnað sem og kröfu félagsins um niðurfellingu 25% álags sem ríkisskattstjóri hafði bætt við hækkun skattstofna félagsins sem leiddi af lækkun gjaldfærðrar húsaleiguÚrskurður nr. 70/2017
Rekstrarkostnaður
Veðmál
Duldar arðgreiðslur
Ríkisskattstjóri felldi niður í skattskilum kæranda, sem var einkahlutafélag, gjaldfært tap af veðmálum á íþróttakappleiki á vefsíðunni Betfair þar sem ríkisskattstjóri taldi að um væri að ræða persónuleg útgjöld eiganda og fyrirsvarsmanns kæranda sem ekki tengdust atvinnurekstri félagsins. Yfirskattanefnd féllst ekki á með kæranda að veðmál af greindum toga teldust til fjármálagerninga í skilningi laga um verðbréfaviðskipti eða að þeim mætti jafna til slíkra gerninga. Þá hefði ekki verið gerð grein fyrir tekjum og gjöldum af hinum meintu viðskiptum við Betfair með neinum viðhlítandi hætti í bókhaldi kæranda, enda hefðu niðurstöðutölur eingöngu verið færðar í árslok og þá að því er virtist eingöngu á grundvelli framlagðs fjár til veðmála. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að félagið hefði verið aðili að umræddri veðmálastarfsemi þannig að frádráttur taps af veðmálunum gæti komið til álita í skattskilum félagsins, hvorki sem frádráttarbær rekstrarkostnaður né á öðrum grundvelli. Var kröfum kæranda hafnað.
Úrskurður nr. 72/2017
Stimpilgjald
Breyting á félagaformi
Í máli þessu var ágreiningur um hvort greiða bæri stimpilgjald vegna eignayfirfærslu fasteignar í tengslum við breytingu á sameignarfélagi í einkahlutafélag. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að lögfest undanþága frá gjaldskyldu vegna eignayfirfærslna í kjölfar félagaréttarlegs samruna, breytingar einkahlutafélags í hlutafélag eða skiptingar félaga tæki samkvæmt orðalagi sínu ekki til nafnbreytingar á eiganda fasteignar í tengslum við breytingu sameignarfélags í einkahlutafélag. Var kröfum kæranda hafnað.