Úrskurður nr. 84/2018
Lánveiting einkahlutafélags til tengds aðila
Duldar arðgreiðslur
Álag
Kærandi var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður X ehf. Ríkisskattstjóri færði kæranda til tekna meintar óheimilar lánveitingar frá félaginu á árunum 2011-2014, en kærandi hélt því fram að greiðslurnar væru endurgreiðsla á láni kæranda til Z ehf., systurfélags X ehf., og að Z ehf. hefði framselt kæranda kröfu sem Z ehf. hefði átt á hendur X ehf. Yfirskattanefnd tók fram að um tvo sjálfstæða lögaðila væri að ræða, þ.e. X ehf. og Z ehf., og taldi skýringar kæranda vart fá staðist, enda urðu ekki séð tengsl milli myndunar kröfu Z ehf. á hendur X ehf. og hinna umdeildu greiðslna X ehf. til kæranda. Þá þóttu skatt- og reikningsskil bæði X ehf. og Z ehf. ekki bera með sér að til framsals kröfunnar hefði komið. Var ekki talið unnt að byggja niðurstöðu málsins á öðru en tilgreiningum í bókhaldi og skattskilum X ehf. um greiðslur félagsins til kæranda. Var kröfum kæranda hafnað, þar með talið kröfu hans um niðurfellingu 25% álags.Úrskurður nr. 85/2018
Tryggingabætur
Málsmeðferð
Sú breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda, að færa honum til tekna í lið 2.3 í skattframtalinu slysabætur frá tryggingafélagi, var ómerkt með því að ríkisskattstjóri gætti þess ekki að gefa kæranda kost á að koma á framfæri skýringum sínum varðandi meðferð teknanna og hvernig þær tengdust atvinnurekstri kæranda. Var bent á að fengnar slysabætur gætu talist til rekstrartekna ef þær tengdust atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.Úrskurður nr. 87/2018
Skattsekt
Skattrannsókn
Gjöf
Sönnun
Skattrannsóknarstjóri ríkisins krafðist þess að A yrði gerð sekt fyrir að hafa vanrækt að gera í skattframtali sínu árið 2012 grein fyrir tekjum sem A hlotnuðust með því að hafa þegið í gjöf frá föður sínum hlutabréf í X ehf. og Y ehf. sem eignfærð voru í skattframtali A umrætt ár. A hélt því m.a. fram að hlutabréfin hefðu verið færð sem eign hans í skattskilum án hans vitundar og að hann hefði síðar talið að um skipti á hlutabréfum hefði verið að ræða þar sem hann hefði fengið umrædd hlutabréf í X ehf. og Y ehf. í skiptum fyrir hlutabréf sín í Z ehf. Yfirskattanefnd taldi að þótt A hefði sýnt af sér nokkurt hirðuleysi í tengslum við greindar eignatilfærslur eftir að hann varð meðvitaður um þær, þætti varhugavert að telja sannað að A hefði uppfyllt þær auknu gáleysiskröfur sem skattalög gerðu vegna refsiverðra brota gegn lögunum. Var A því ekki gerð sekt.