Úrskurður nr. 58/2018
Rekstrartap, frádráttarbærni
Áætlun skattstofna
Valdsvið yfirskattanefndarSynjun ríkisskattstjóra á beiðni kæranda, sem var hlutafélag, um að síðbúin skattframtöl félagsins árin 2010-2015 yrðu lögð til grundvallar álagningu opinberra gjalda umrædd ár í stað áætlunar, var ekki talin ákvörðun sem kæranleg væri til yfirskattanefndar. Þá kom fram að vegna greindrar höfnunar ríkisskattstjóra og áætlunar skattstofna kæranda umrædd ár væri ekki fullnægt lagaáskilnaði um frádrátt og yfirfærslu eftirstöðva rekstrartapa fyrri ára í skattframtali kæranda árið 2016. Var kæru kæranda vísað frá yfirskattanefnd
Úrskurður nr. 60/2018
Virðisaukaskattur
Innskattur
FasteignaviðskiptiÍ máli þessu var deilt um hvort kærandi gæti fært til innskatts virðisaukaskatt af aðkeyptri lögmannsþjónustu í tengslum við kaup jarðar. Yfirskattanefnd benti á að viðskipti með fasteignir væru ekki virðisaukaskattsskyld svo og væri fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti. Þættu umrædd þjónustukaup kæranda ekki eingöngu varða sölu vöru eða skattskyldrar þjónustu í skilningi virðisaukaskattslaga. Var kröfum kæranda hafnað.
Úrskurður nr. 61/2018
Ívilnun í sköttum
Tap á útistandandi kröfum
Íbúðarréttur
Á árinu 2014 sögðu kærendur upp búsetusamningi við húsnæðissamvinnufélagið X og öðluðust þá rétt til endurgreiðslu andvirðis búseturéttar. Með samþykkt og staðfestingu nauðasamnings á árinu 2016 losnaði X hsf. undan skuldbindingu sinni um endurgreiðslu búseturéttarins og í kjölfarið seldu kærendur réttindin fyrir lægri fjárhæð en sem nam andvirði þeirra. Talið var að kærendur hefðu sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að mismunurinn fengist ekki endurgreiddur. Var kæruúrskurður ríkisskattstjóra, þar sem hafnað var beiðni kærenda um ívilnun í sköttum vegna tapaðrar kröfu á hendur X hsf., því felldur úr gildi og kæra kærenda send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.
Úrskurður nr. 63/2018
Virðisaukaskattur
Kaup á þjónustu erlendis frá
SkattskyldusviðInnskattu
Álag á virðisaukaskatt
Kærandi í máli þessu var hlutafélag. Í málinu var deilt um það hvort kæranda bæri að greiða virðisaukaskatt vegna kaupa á þjónustu af erlendum aðilum, W og Y, á árinu 2014 þar sem þjónustan hefði verið notuð að hluta eða öllu leyti hér á landi, eins og ríkisskattstjóri taldi. Kærandi hélt því fram að þjónusta Y hefði falist í því að leita fjárfestingarkosta erlendis og félli undir eiginlega bankastarfsemi í skilningi 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 og væri af þeim sökum undanþegin virðisaukaskatti. Í úrskurði yfirskattanefndar var gerð grein fyrir túlkun umrædds ákvæðis og talið að ákvæðið tæki ekki til annarrar ráðgjafarþjónustu fjármálastofnana en sem stæði í tengslum við ávöxtun eigna, lánveitingar eða aðra hliðstæða bankaþjónustu. Þar sem kærandi þótti ekki hafa fært rök fyrir því að þjónusta Y hefði staðið í sambandi við bankaþjónustu af fyrrgreindu tagi og að þjónustan yrði að teljast hafa verið notuð a.m.k. að hluta hér á landi við töku ákvarðana var kröfu kæranda hafnað að því er þetta snerti. Á hinn bóginn þótti ekki hafa verið nægjanlega leitt í ljós að aðkeypt þjónusta af lögmannsstofunni W, sem að sögn kæranda laut eingöngu að skjalagerð við framkvæmd fyrirhugaðrar skráningar kæranda í kauphöll erlendis, hefði verið þáttur í ákvörðunartöku kæranda varðandi kauphallarskráninguna, svo sem ríkisskattstjóri hafði byggt á. Var því fallist á kröfu kæranda varðandi þann þátt málsins. Þá var fallist á varakröfu kæranda, sem hafði með höndum blandaða starfsemi í skilningi virðisaukaskattslaga, um hlutfallslegan innskattsfrádrátt vegna virðisaukaskatts af þjónustu Y. Kröfu kæranda um niðurfellingu álags á virðisaukaskatt var hafnað