Úrskurður yfirskattanefndar nr. 176/2017
Endurupptaka máls
Málskostnaður
Beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði yfirskattanefndar nr. 119/2017, sem byggði á því að kæranda hefði láðst að leggja fyrir nefndina gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu, var hafnað. Voru skýringar kæranda á ástæðu þess að gögnin voru ekki lögð fram undir meðferð málsins, þ.e. að kærandi hefði búist við því að fá ábendingu frá yfirskattanefnd um að málið væri tilbúið til meðferðar, ekki taldar gefa neitt tilefni til að taka málið til nýrrar meðferðar hvað varðaði ákvörðun málskostnaðar.
Úrskurður yfirskattanefndar nr. 177/2017
Tvísköttunarsamningur
Lífeyrisgreiðslur
Málsmeðferð
Kærendur, sem báru ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, fengu greiddan lífeyri frá Noregi sem skattlagður var þar í landi. Talið var að skattaleg meðferð hinna erlendu tekna kærenda, þ.e. að telja tekjurnar með í skattstofni en lækka íslenskan skatt (tekjuskatt og útsvar) sem svaraði hlutfalli norskra tekna í skattstofni, hefði verið í fullu samræmi við íslenska löggjöf og ákvæði tvísköttunarsamnings milli Norðurlandanna. Var kröfum kærenda hafnað.
Úrskurður yfirskattanefndar nr. 179/2017
Söluhagnaður fyrnanlegra eigna
Frestun skattlagningar
Álag vegna söluhagnaðar
Kærandi, sem var einkahlutafélag, hafði óskað eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðar af fyrnanlegum eignum um tvenn áramót í skattskilum sínum árið 2015 og féllst ríkisskattstjóri á þá ósk. Í skattskilum sínum gjaldárið 2016 færði kærandi til tekna hinn frestaða söluhagnað og taldi ríkisskattstjóri að reikna bæri 10% álag á mismun tekjufærðs söluhagnaðar og sérstakra fyrninga. Yfirskattanefnd hafnaði kröfu kæranda um niðurfellingu álagsins með vísan til ótvíræðs orðalags viðkomandi lagaákvæða og verklagsreglu ríkisskattstjóra sem þótti vera í samræmi við lagaákvæðin.