Úrskurður nr. 110/2017
Aðflutningsgjöld
Endursending vöru til landsinsLög nr. 88/2005, 6. gr. 1. mgr. 6. tölul. Reglugerð nr. 630/2008, 54. gr.
Kærandi, sem var verktakafyrirtæki, sendi ýmsan búnað frá Íslandi til Færeyja árið 2012 vegna byggingarverkefnis systurfélags kæranda þar í landi. Að loknum framkvæmdum á árinu 2016 flutti kærandi búnaðinn aftur hingað til lands. Í úrskurði yfirskattanefndar var gerð grein fyrir forsögu tollfrelsisákvæðis vegna vöru sem endursend væri hingað til lands og m.a. bent á að skilyrði um tímafrest til endursendingar vöru án greiðslu aðflutningsgjalda ætti sér langa sögu í tollalöggjöf. Var talið að málefnaleg rök byggju að baki ákvæði í reglugerð um tímafrest fyrir tollfrelsi og að það hefði verið innan valdheimilda ráðherra að setja reglugerðarákvæðið. Þá væri enginn greinarmunur gerður í reglugerðinni á vörum eftir því hvort þær væru forgengilegar eða þeim ætlaður langur notkunartími. Var talið að ákvæði reglugerðarinnar um ársfrest til endursendingar vöru yrði allt að því marklaust ef því yrði beitt með þeim hætti sem kærandi hélt fram. Var kröfum kæranda hafnað.