Search
Close this search box.

Virðisaukaskattur af þjónustu vegna greiðslukorta

Vísað er til erindis frá félaginu, dags. 26. janúar 2015, þar sem óskað er upplýsinga um hvort tiltekin þjónusta þess sé virðisaukaskattsskyld eða falli undir undanþáguákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Fram kemur í erindinu að meðal þeirrar þjónustu sem félagið veiti sé útleiga á posum og annarri þjónustu þeim tengdum, þ.m.t. miðlun notkunarupplýsinga. Fyrir þá þjónustu geri félagið reikning á kaupmanninn og leggi á virðisaukaskatt í efra skattþrepi virðisaukaskatts. Hinni umspurðu þjónustu, sem félagið veiti auk framangreinds, er lýst þannig í erindinu að í hvert sinn er kaupmaður noti hinn leigða posa, þ.e. taki við greiðslukorti, tengist posinn miðlægu heimildarleitarkerfi félagsins sem sendi fyrirspurn til viðkomandi færsluhirðis og það svar sem fæst aftur til posans. Í lok dags sendi kaupmaður þær færslur sem geymdar séu í posanum til félagsins sem flokkar þær og sendir áfram til viðkomandi færsluhirðis. Fyrir þessa þjónustu hafi félagið gert reikning á færsluhirða og innheimt virðisaukaskatt samkvæmt þeim reikningum.
 

Fram kemur í erindinu að hin umspurða þjónusta sé og hafi verið veitt af öðrum aðila og hafi félagið upplýsingar um að sá aðili veiti þessa þjónustu án þess að leggja á hana virðisaukaskatt. Þar sem félagið telji ekki ljóst hvort því beri að leggja virðisaukaskatt á ofangreinda þjónustu, þ.e. heimildarleitina og sendingu á flokkuðum upplýsingum til færsluhirðanna, telji hann nauðsynlegt að óska eftir áliti ríkisskattstjóra í þessu máli.


Til svars erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:


Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að skattskyldan nái til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega undanþegin samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna þar sem starfsemi undanþegin virðisaukaskatti er tæmandi talin í fjórtán tölusettum liðum. Þýðing undanþáganna í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er sú að hvorki ber að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þóknun sem sá er þjónustunnar nýtur er krafinn um né ber að reikna og standa skil á virðisaukaskatti af andvirði slíkrar þjónustu sem látin er í té endurgjaldslaust. Undanþágurnar þýða hins vegar ekki að sá sem undanþegna þjónustu veitir geti keypt virðisaukaskattsskyld aðföng til starfsemi sinnar án greiðslu virðisaukaskatts. Þá fæst virðisaukaskattur af aðföngum ekki endurgreiddur úr ríkissjóði í formi innskatts, sbr. ákvæði 4. mgr. 2. gr. sömu laga. Þannig ber sá sem undanþegna þjónustu veitir almennt virðisaukaskatt af aðföngum er varða hina undanþegnu þjónustu. Undanþágurnar fela því í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber samkvæmt lögskýringarvenju að skýra þröngri skýringu og aldrei rýmri en orðalag þeirra gefur beinlínis tilefni til. 


Hin umspurða þjónusta varðar undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 en samkvæmt því er þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun, undanþegin virðisaukaskatti. Ríkisskattstjóri hefur á umliðnum árum gefið út nokkur álit sem varða undanþáguákvæði þetta og með bréfi hans, dags. 16. febrúar 2015 (tilv. G-ákv. 1095/15), voru af gefnu tilefni áréttuð og skýrð nánar þau meginsjónarmið sem þar koma fram. Í bréfi þessu kemur t.a.m. fram að við túlkun á undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 sé miðað við eftirfarandi: 


· 
Að ákvæðið taki aðeins til eiginlegrar, skilgreindrar þjónustu banka, sparisjóða og annarra lánastofnana samkvæmt lögum sem gilda þar um hverju sinni, sbr. m.a. lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, en ekki til annarrar þjónustu sem þessar stofnanir kunna að veita. 

Þá kemur og fram í sama bréfi að ríkisskattstjóri hafi túlkað framangreint undanþáguákvæði þannig að vinna einstakra aðila geti talist undanþegin skattskyldu með sama hætti að eftirtöldu skilyrði uppfylltu:


· 
Að um sé að ræða vinnu sem telst fyllilega sambærileg við starfsemi lánastofnana sem er undanþegin samkvæmt ákvæðinu.

Samkvæmt framangreindu skilyrði er það álit ríkisskattstjóra að það sé eðli starfseminnar sem ráði því hvort hún teljist undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli ákvæðisins en ekki hver veiti hana eða hverjum. Í bréfinu segir enn fremur að við mat á því hvort þóknun fyrir þjónustu sem innt er af hendi fyrir lánastofnanir teljist undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli ákvæðisins verði að leggja eftirtalin atriði til grundvallar: 


· 
Að þjónustan sé eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í undanþeginni starfsemi fjármálafyrirtækja.
· 
Að í heild feli þjónustan í sér ábyrgð á yfirfærslu réttinda, bæði í lagalegum og fjármálalegum skilningi. 
· 
Að þjónustan sé afmörkuð frá almennri tækniþjónustu. 
· 
Að ganga þurfi úr skugga um að ábyrgðin á þjónustunni lúti ekki eingöngu að tækniþáttum hennar heldur sé um að ræða raunverulega ábyrgð á færslunum sem slíkum gagnvart þjónustukaupa, þ.e. lánastofnun.

Í framangreindu ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 1095/15 kemur einnig fram að samkvæmt áliti hans séu kaup fjármála- og verðbréfafyrirtækja á öðrum aðföngum til starfsemi þeirra en að framan greinir skattskyld, þ.e. teljist til skattskyldrar aðkeyptrar þjónustu í skilningi 4. mgr. 2. gr. nefndra laga nr. 50/1988. Sem dæmi eru í ákvarðandi bréfinu tilgreindir eftirtaldir þættir: 


· 
Daglegur rekstur stoðkerfa, svo sem stýrikerfa, gagnagrunna, öryggiskerfa, skrifstofukerfa og verkbókhalds. 
· 
Afritun gagna og gagnageymsla og viðhald hugbúnaðar. 
· 
Almenn hýsing vélbúnaðar, tölvu- og upplýsingakerfa fyrir banka- og fjármálastofnanir er starfa á grundvelli laga nr. 161/2002, um fjármálastarfsemi. 
· 
Uppsetning vélbúnaðar, til að mynda net-, prent- og gagnagrunnsþjóna, svo sem í þágu viðskiptavina, og viðhald slíks búnaðar.

Til skoðunar kemur hvort hin umspurða þjónusta kunni að falla undir ákvæði laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Samkvæmt 10. tölul. 2. gr. þeirra laga kemur fram að þau taki m.a. ekki til stoðþjónustu tækniþjónustufyrirtækja við greiðsluþjónustu sem feli ekki í sér að þau hafi nokkurn tíma eignarhald á þeim fjármunum sem millifæra skuli, þ.m.t. úrvinnslu og geymslu gagna, þjónustu við verndun trúnaðarupplýsinga og friðhelgi einkalífs, sannvottun gagna og eininga, þjónustuveitu upplýsingatækni- og samskiptanets og útvegun og viðhald skjástöðva og búnaðar fyrir greiðsluþjónustu.


Eins og hinni umspurðu þjónustu félagsins er lýst í framangreindu bréfi þess virðist hún felast í milligöngu, þ.e. að flytja fyrirspurn frá leigutaka posa, kaupmanni, um t.d. hvort greiðslukort viðskiptavinar hans sé gilt eða ekki til viðkomandi færsluhirðis og að flytja svar þaðan til baka. Þjónustan virðist því ekki fela í sér að félagið taki ábyrgð á svarinu sem slíku. Að áliti ríkisskattstjóra og með vísan til framangreinds verður þessi þjónusta ekki felld undir framangreint undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. nefndra laga nr. 50/1988 heldur teljist hún til aðfanga viðskiptavina félagsins í skilningi 4. mgr. 2. gr. sömu laga og er því virðisaukaskattsskyld samkvæmt almennum ákvæðum þeirra. 


Beðist er velvirðingar á drætti við að svara erindi félagsins.


Ríkisskattstjóri

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur