Search
Close this search box.

Virðisaukaskattur.Frístundastarf einstaklings. Vörukynning og fræðsla um söluvörur. Úrskurður yfirskattanefndar þar um

Meðfylgjandi úrskurður yfirskattanefndar nr 182/2015 og birtur er á vefsvæði nefndarinnar,
kveður á um að  sala kæranda á þjónustu við vörukynningu teldist til skattskyldrar veltu kæranda, 
enda varð ekki séð að nein undanþáguákvæði virðisaukaskattslaga gætu átt við um slíka þjónustu.I.

Með kæru, dags. 29. desember 2014, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 13. nóvember 2014, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2013 og virðisaukaskatts árið 2012. Með úrskurði þessum færði ríkisskattstjóri kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali árið 2013 vanframtaldar verktakagreiðslur frá X ehf. að fjárhæð 1.919.033 kr., sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda reiknað endurgjald að fjárhæð 600.000 kr. vegna vinnu við eigin atvinnurekstur á árinu 2012, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 58. gr. sömu laga. Að teknu tilliti til gjaldfærslu reiknaðs endurgjalds og annarra rekstrarútgjalda, sbr. rekstrarskýrslu (RSK 4.11) vegna greiðslna frá X ehf. sem barst ríkisskattstjóra þann 18. febrúar 2014, nam tap af starfseminni 89.105 kr. Þá færði ríkisskattstjóri kæranda til skattskyldra tekna í skattframtalinu vanframtaldar húsaleigutekjur að fjárhæð 1.790.000 kr., sbr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Við þá hækkun skattstofna kæranda, sem leiddi af framangreindum breytingum, bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Loks tók ríkisskattstjóri þá ákvörðun með úrskurði þessum að færa kæranda á grunnskrá virðisaukaskatts frá 1. nóvember 2012, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og ákvarða kæranda virðisaukaskattsskylda veltu 1.919.033 kr. og útskatt 489.353 kr., auk álags, vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2012, sbr. 26. gr. greindra laga. Tók ríkisskattstjóri fram í úrskurðinum að þar sem sala á … vörum væri ekki undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 bæri að innheimta og skila virðisaukaskatti af sölu varanna, sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laganna. Þess er að geta að úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 17. janúar 2014, svarbréf kæranda, sem barst ríkisskattstjóra 18. febrúar sama ár, boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 26. mars 2014, og andmælabréf kæranda, sem barst ríkisskattstjóra 8. apríl 2014.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 29. desember 2014, er tekið fram að með hinum kærða úrskurði hafi ríkisskattstjóri komist að þeirri niðurstöðu að vörukynning og fræðsla falli undir lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Er rakið að kærandi hafi í frístundum starfað sem kynningaraðili fyrir X ehf. Starfið hafi falist í því að fara um landið og kynna viðskiptatækifæri og vörur fyrirtækisins. Ekki sé því um vörusölu að ræða. Þeir, sem haft hefðu áhuga á að kaupa vörur eftir kynningu, hafi haft samband við X ehf., pantað vöruna og fengið hana senda heim að greiðslu lokinni. Kærandi hafi síðan fengið greitt miðað við árangur af markaðskynningu. Umboðsmanni kæranda sé kunnugt um að greind starfsemi og hliðstæð hafi ekki verið talin virðisaukaskattsskyld. Í því sambandi megi benda á starfsemi Y ehf., en ríkisskattstjóri hafi úrskurðað um að sú starfsemi sé undanþegin virðisaukaskatti. Sé ákvörðun ríkisskattstjóra því kærð.

II.

Með bréfi, dags. 9. febrúar 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Þar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. febrúar 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og henni gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Ágreiningsefni í máli þessu varðar ákvörðun virðisaukaskatts kæranda árið 2012, nánar tiltekið hvort starfsemi kæranda við vörukynningu fyrir X ehf. sé skattskyld til virðisaukaskatts, sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eða undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 3. mgr. 2. gr. laganna. Líta verður svo á að breytingar ríkisskattstjóra á skattskilum kæranda vegna tekjuársins 2012 samkvæmt hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 13. nóvember 2014, séu að öðru leyti ágreiningslausar, enda er ekkert að þeim vikið í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 nær skattskylda samkvæmt lögunum til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er getið um undanþágur frá þessari meginreglu. Af hálfu kæranda er komið fram að hún hafi starfað sem kynningaraðili fyrir X ehf. og hafi starfið verið fólgið í því að ferðast um landið og kynna vörur fyrirtækisins og viðskiptatækifæri. Hafi greiðslur til kæranda tekið mið af árangri af þeirri markaðskynningu. Af hálfu kæranda hefur ekki verið vísað til neinna undanþáguákvæða í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 til stuðnings kröfum kæranda og verður ekki séð að neitt þeirra geti átt við um þá þjónustu sem um ræðir. Verður ekki annað séð en að þjónustusala kæranda falli undir hið almenna ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Með vísan til þess og þar sem að öðru leyti er ekki ágreiningur um hina kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra á virðisaukaskatti kæranda er kröfu kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur