“Efni: Gjalddagi aðila í mánaðarskilum skv. 3. mgr. 27. gr. A laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum
Ríkisskattstjóri tilkynnir hér með breytta framkvæmd á gjalddögum virðisaukaskatts þeirra aðila sem skila virðisaukaskatti á mánaðarfresti á grundvelli 3. mgr. 27. gr. A laga nr. 50/1988.
Skattaðili sem hefur verið skráður að nýju á virðisaukaskattsskrá eftir að hafa verið felldur af skrá á grundvelli 1. mgr. 27. gr. A laga nr. 50/1988 vegna áætlunar virðisaukaskatts samfellt í tvö uppgjörstímabil eða lengur skal nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil í að minnsta kosti tvö ár frá og með því tímabili sem skráning á sér stað að nýju og skal gjalddagi vera 15 dögum eftir að uppgjörstímabili lýkur.
Hingað til hefur framkvæmdin verið sú að gjalddagi framangreindra aðila hefur verið fimmti dagur annars mánaðar eftir að almennu uppgjörstímabili lýkur.
Frá og með janúar mánuði 2017 verður framkvæmdinni breytt til samræmis við framangreint lagaákvæði og verður gjalddagi uppgjörstímabilsins janúar 2017 því 15. febrúar 2017 og framvegis eftir það verður gjalddagi ávallt 15 dögum eftir að uppgjörstímabilinu lýkur. Ef gjalddaga ber upp á helgidag eða almennan frídag færist hann á næsta virka dag þar á eftir.
Virðisaukaskattsskýrslu skal skila rafrænt á þjónustusíðu embættisins www.skattur.is, úr vefbanka eða fjárhagsbókhaldskerfi.
Athygli er vakin á því að ef aðili fær á sig áætlun virðisaukaskatts skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 og skilar síðar skýrslu í stað þeirrar áætlunar, þarf að skila inn gögnum að baki skýrslunni svo hún fáist afgreidd. Með gögnum er átt við hreyfingalista inn- og útskatts ásamt stærstu reikningum er liggja að baki innskatti og stærstu sölureikningum.
Nánari upplýsingar um framangreint má finna á heimasíðu embættisins .”