Search
Close this search box.

Yfirskattanefndin. Nokkrir úrskurðir hennar.

Meðfylgjandi er útdráttur úr úrskurðum yfirskattanefndarinnar eins og þeir birtast á vef hennar.


Nánar er greint frá þessum úrskurðum  á þessari slóð:
http://www.yskn.is/urskurdir/#4063



Úrsk 235/2015
Arður erlendis frá.
Ríkisskattstjóri færði kæranda til tekna sem skattskyldar gjafir greiðslur frá erlendu félagi á árunum 2006-2009. Hafnaði ríkisskattstjóri því að um væri að ræða venjulegar arðgreiðslur frá félaginu þar sem kærandi hefði engin gögn lagt fram um starfsemi þess. Yfirskattanefnd féllst á að virða umræddar greiðslur sem arðgreiðslur frá hinu erlenda félagi og vísaði í því sambandi m.a. til afrita af stjórnarsamþykktum félagsins frá árunum 2006-2009 sem kærandi hafði lagt fram. Var úrskurður ríkisskattstjóra felldur úr gildi. 


Úrsk 237/2015
Skattsekt
Skattrannsóknarstjóri krafðist þess að A yrði gerð sekt fyrir að hafa staðið skil á röngum skattframtölum með því að vantelja launatekjur sínar vegna starfa fyrir X hf. A hélt því fram að ósannað væri að hann hefði verið eigandi bankareiknings í Lúxemborg sem meint laun voru greidd inn á. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að þótt ekki yrði staðhæft, gegn neitun A, að bankareikningurinn hefði verið í nafni hans, yrði að virtum gögnum málsins að leggja til grundvallar að greiðslur inn á bankareikninginn hefðu verið vegna A og að honum hefðu verið fjármunirnir tiltækir. Var A gerð sekt. 

Úrsk 244/2015
Duldar arðgreiðslur ofl.
Kærandi var fyrirsvarsmaður og aðaleigandi X ehf. Ríkisskattstjóri taldi að kaup X ehf. á eigin hlutum af öðru einkahlutafélagi, F ehf., á árinu 2007 bæri að virða sem óheimila úthlutun fjármuna til kæranda þar sem eiginfjárstaða X ehf. hefði ekki leyft kaupin. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að væru atvik með þeim hætti í einstökum tilvikum, að virða bæri kaup hluta- eða einkahlutafélags á eigin hlutum í skattalegu tilliti sem úthlutun af fjármunum félagsins, t.d. vegna kaupa á eigin hlutum á yfirverði, gæti komið til tekjufærslu úthlutunar (dulins arðs) hjá viðkomandi hluthafa á grundvelli 1., sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Á hinn bóginn gæti slík aðstaða almennt ekki leitt til tekjufærslu á sama grundvelli hjá öðrum hluthöfum, enda væri þá ekki um að ræða neina úthlutun verðmæta til þeirra. Þegar litið var til þess sem fyrir lá um aðdraganda viðskipta X ehf. og F ehf., sem voru í reynd liður í viðskiptum þáverandi hluthafa X ehf. með stærstu eign félagsins, taldi yfirskattanefndar ekki unnt að taka undir með ríkisskattstjóra að viðskiptin bæru þess merki að hafa einvörðungu verið gerð með hag kæranda að leiðarljósi. Með vísan til framanritaðs og með hliðsjón af því sem fyrir lá um skatt- og úrskurðaframkvæmd í hliðstæðum tilvikum, sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 160/2013 og nr. 96/2015, þótti ríkisskattstjóri ekki hafa skotið nægum stoðum undir hina kærðu ákvörðun sína og var hún því felld úr gildi. 

Úrsk 246/2015
Ábyrgðarskuldbindingar.
Kærandi í máli þessu var hlutafélag um rekstur, eignarhald og fjárfestingar í félögum í flutningastarfsemi og annan skyldan rekstur. Á árinu 2006 stóð kærandi að stofnun erlends félags, X Ltd., sem keypti í kjölfarið eignarhlut kæranda í öðru félagi, Y plc. Voru viðskiptin fjármögnuð af banka og í tengslum við þau gekkst kærandi í ábyrgð fyrir X Ltd. Síðar féll ábyrgðin á kæranda. Ríkisskattstjóri taldi að ábyrgðin hefði verið veitt í greiðaskyni eða sem aðstoð við stofnun eða rekstur X Ltd. og felldi niður gjaldfærslu hennar í skattskilum kæranda. Yfirskattanefnd taldi að ekki yrði litið framhjá því að veiting ábyrgðarinnar hefði með beinum hætti tengst sölu kæranda á hlutafjáreign í Y plc. og verið forsenda þess að af sölunni gæti orðið vegna kröfu lánveitanda. Voru ekki talin efni til að draga í efa fram komnar skýringar kæranda á tilgangi viðskiptanna og var m.a. bent á að umtalsverður hagnaður hefði orðið af sölu hlutabréfanna. Var hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra hnekkt

Úrsk 254/2015
Skattsekt
A var með úrskurði yfirskattanefndar gerð sekt fyrir að hafa á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 2009 og 2010 greiðslur frá eigin einkahlutafélagi sem talið var að virða bæri sem óheimilar úthlutanir fjármuna úr félaginu. Þá var A gerð sekt fyrir að hafa vanrækt að telja fram arðgreiðslu frá félaginu. 

Úrsk 261/2015
Íbúð flutt til ehf. Vaxtabóta krafist.
Ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda um eignfærslu fasteignar í skattframtölum hans árin 2010-2014 og að lán vegna eignarinnar yrði fært sem lán til öflunar íbúðarhúsnæðis í skattframtölunum. Byggði ríkisskattstjóri á því að samkvæmt opinberri skráningu hefði kærandi ekki verið eigandi fasteignarinnar frá árinu 2009. Kærandi hélt því fram að hann hefði verið raunverulegur eigandi fasteignarinnar og að afsal hennar til dóttur kæranda og síðar X ehf., einkahlutafélags í hans eigu, hefði verið til málamynda í tilefni af gjaldþroti kæranda. Yfirskattanefnd benti á að gögn málsins bæru ekki annað með sér en að kærandi hefði selt fasteignina á árinu 2009 og frá þeim tíma haft leiguafnot af eigninni. Var tekið fram að kærandi hefði hagað ársreikningi og skattskilum X ehf. svo og eigin skattskilum í samræmi við það að eignarhald og rekstur fasteignarinnar væri á vegum félagsins. Var kröfum kæranda varðandi eignfærslu fasteignarinnar og ákvörðun vaxtabóta hafnað. 


Úrsk 263/2015
Málamyndagerningur v/hlutabréfa ofl 
Ríkisskattstjóri færði kæranda, sem var einkahlutafélag, til tekna í skattframtali árið 2010 söluhagnað hlutabréfa sem myndast hafði á árinu 2007 og verið frestað að skattleggja um tvenn áramót. Hafnaði ríkisskattstjóri því að kæranda væri heimilt að færa söluhagnaðinn til lækkunar kaupverði hlutabréfa í X ehf. á árinu 2009 þar sem sú fjárfesting hefði verið gerð til málamynda í því skyni einu að komast hjá skattlagningu frestaðs söluhagnaðar, en X ehf. var að öllu leyti í eigu kæranda. Í úrskurði yfirskattanefndar var vísað til þeirra skýringa kæranda að félagið hefði staðið að stofnun X ehf. í árslok 2008 í því skyni að koma fjárfestingum í ferðaþjónustu og flugrekstri fyrir innan vébanda dótturfélagsins. Taldi yfirskattanefnd að kærandi hefði ekki gefið sannfærandi skýringar á ástæðu þess að ekki hefði verið um að ræða neinar fjárfestingar X ehf. í öðrum félögum frá stofnun X ehf. árið 2008 þar til félagið sameinaðist kæranda árið 2011, ekki síst í ljósi þess sem fyrir lá um fjárfestingar kæranda sjálfs í félögum tengdum ferðaþjónustu eftir stofnun X ehf. Var fallist á með ríkisskattstjóra að hinar umdeildu ráðstafanir kæranda tengdar dótturfélaginu X ehf. bæru það mikinn keim af málamyndagerningi að ekki væri tækt að byggja á þeim í skattalegu tilliti. Varakröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags var hafnað. 


Úrsk 265/2015
Frádráttarbærni á rekstrartapi.
Kærandi var einkahlutafélag um eignarhald á fasteignum og verðbréfum. Ríkisskattstjóri hafnaði frádráttarbærni rekstrartaps í skattframtali kæranda árið 2013 á þeim forsendum að veruleg breyting hefði orðið á starfsemi félagsins á árinu 2012 með yfirtöku kæranda á starfsemi X ehf. við samruna félaganna, en kærandi var yfirtökufélag við samrunann. Yfirskattanefnd tók fram að við túlkun 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 yrði að hafa ríka hliðsjón af þeim megintilgangi ákvæðisins að stemma stigu við kaupum á fyrirtækjum í þeim eina tilgangi að ná fram skattalegu hagræði vegna tapsyfirfærslu. Talið var ljóst að veruleg breyting hefði orðið á rekstri kæranda á árinu 2012 með breytingum á eignarhaldi félagsins og yfirtöku þess á virðisaukaskattsskyldri starfsemi X ehf., þ.e. sölu á þjónustu, en kærandi hefði ekki haft með höndum slíka starfsemi áður en til yfirtökunnar kom. Þá yrði að leggja til grundvallar að aðalstarfsemi X ehf. áður en til samruna við kæranda kom hefði verið sala á þjónustu, enda hefði tekjuöflun félagsins nánast alfarið verið byggð á þjónustusölu. Starfsemi kæranda hefði hins vegar einvörðungu verið fólgin í fjárfestingum og varðveislu verðbréfa og hið umdeilda tap í rekstri félagsins eingöngu myndast vegna kaupa á hlutabréfum. Yrði ekki dregin önnur ályktun en að tilgangur með breytingum á starfsemi kæranda á árinu 2012 hefði fyrst og fremst verið sá að nýta rekstrartap félagsins. Var kröfum kæranda hafnað. 

Close Popup

Félag viðurkenndra bókara notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda síðunnar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.


Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á fvb.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Save
Samþykkja allar vafrakökur