Úrskurður nr. 197/2017
Atvinnurekstur
Hlutabréfaeign
Ekki var fallist á með kæranda að telja bæri eignarhald og umsýslu hans með hlutabréf í X hf. til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi í skattalegu tilliti. Kom m.a. fram í því sambandi að við ákvörðun þess, hvort um atvinnurekstur væri að ræða, hefði einkum verið horft til þess í úrskurðaframkvæmd hvort um sjálfstæða starfsemi væri að ræða sem rekin væri reglubundið og í nokkru umfangi í þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði. Í tilviki kæranda væri ekki fyrir að fara neinni reglubundinni starfsemi á sviði hlutabréfaviðskipta. Þá væri um að ræða eignarhald að hlutabréfum í hlutafélagi sem kærandi virtist hafa átt hlut í frá árinu 2000, þ.e. frá stofnári félagsins, og kærandi frá öndverðu hagað skattskilum sínum miðað við að um fjárfestingu utan rekstrar hefði verið að ræða eða allt til ársins 2014. Var kröfum kæranda hafnað.
Úrskurður nr. 199/2017
Virðisaukaskattur
Innskattur
Sérstök skráning
Málsmeðferð
Álag á virðisaukaskatt
Kærandi í máli þessu var skráður sérstakri skráningu í grunnskrá virðisaukaskatts vegna byggingar fasteignar og síðar frjálsri skráningu vegna útleigu hluta eignarinnar. Deilt var um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að lækka áður fenginn innskatt kæranda af kostnaði við byggingu fasteignarinnar vegna þeirra breytinga á forsendum fyrir frádráttarrétti innskatts að fasteignin hafði verið seld C ehf. á árinu 2012 án þess að það félag hefði verið bært til að yfirtaka skyldu til leiðréttingar innskatts vegna eignarinnar. Nánar tiltekið var ágreiningur um þá afstöðu ríkisskattstjóra að kæranda bæri að endurgreiða fenginn innskatt vegna þess hluta fasteignarinnar, sem ekki hefði verið nýttur í skattskyldri starfsemi, þ.e. útleigu með frjálsri skráningu, án tillits til ákvæða í IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993 varðandi ákvörðun á leiðréttingarfjárhæð innskatts. Byggði ríkisskattstjóri í því sambandi einkum á ákvæðum í 3. gr. reglugerðar nr. 577/1989 um bankaábyrgð sem byggingaraðili skal leggja fram við þargreindar aðstæður vegna sérstakrar skráningar sinnar. Yfirskattanefnd féllst ekki á þessa túlkun ríkisskattstjóra og benti í því sambandi m.a. á að samkvæmt beinu orðalagi síðastnefnds reglugerðarákvæðis væri ekki mælt fyrir um skyldu byggingaraðila, sem skráður væri sérstakri skráningu, til endurgreiðslu virðisaukaskatts á þeim grundvelli sem ríkisskattstjóri teldi. Þá þóttu samræmisrök eindregið mæla gegn því að byggingaraðilar yrðu taldir undir aðrar reglur settir en skráðir aðilar almennt hvað varðaði skyldu til leiðréttingar innskatts, ef breyting yrði á forsendum innskattsfrádráttar í rekstri þeirra, hvað sem liði atvikum varðandi þann forsendubrest. Var leiðréttingarfjárhæð vegna innskatts lækkuð verulega, en kröfu kæranda um niðurfellingu álags var hafnað.
Úrskurður nr. 200/2017
Skattrannsókn
Lágskattaríki
Teknategund
Óvenjuleg skipti í fjármálum
Málsmeðferð
Álag
Í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum kæranda árin 2005-2009 endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda vegna tekjuáranna 2006, 2007 og 2008. Í málinu var m.a. deilt um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til tekna í almennu skattþrepi tekjuskatts greiðslur frá X Ltd., sem skráð var á Bresku Jómfrúreyjum, sem kærandi hafði tilfært sem arð frá félaginu í skattframtölum sínum. Í ljósi þess sem fyrir lá um starfsemi X Ltd. á því tímabili sem málið varðaði, og þar sem kærandi hafði ekki lagt fram nein samtímagögn, svo sem afrit stjórnarsamþykkta, til stuðnings kröfu sinni, var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að virða bæri greiðslur X Ltd. til hans í heild eða að hluta sem arðgreiðslur. Þá var kærandi sömuleiðis ekki talinn hafa sýnt fram á með gögnum að vaxtatekjur vegna lánveitingar hans til Y ehf. á árinu 2006 tilheyrðu í reynd X Ltd. Var því ekki hróflað við tekjufærslu ríkisskattstjóra á vaxtatekjunum í skattframtali kæranda árið 2007. Á hinn bóginn var sú ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til tekna söluhagnað vegna sölu Z Ltd., félags í eigu kæranda sem skráð var á Bresku Jómfrúreyjum, á hlutabréfum í E hf. og G hf. á árinu 2006 felld niður. Kom fram að gögn málsins, þar með talið tilkynningar Kauphallar Íslands, bentu eindregið til þess að Z Ltd. hefði verið kaupandi hlutanna í öndverðu. Var ríkisskattstjóri ekki talinn hafa sýnt fram á það að skattleggja bæri söluhagnað vegna sölu hlutabréfanna hjá kæranda persónulega. Kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags var hafnað og kröfu hans um útreikning dráttarvaxta var vísað frá yfirskattanefnd.